Ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga tóku gildi á Íslandi 15. júlí 2018, en lögin höfðu fram að því verið nánast óbreytt frá árinu 2000. Í nýju lögunum er kveðið á um að sveitarfélög hafi persónuverndarfulltrúa sem á að sinna ákveðinni ráðgjöf um hvernig unnið er með persónuupplýsingar. Jón Ingi Þorvaldsson er nýráðinn í þetta starf hjá Hafnarfjarðarbæ og við spurðum hann um helstu áherslur og algengustu vangaveltur um þessi nýju lög og hlutverk þeirra.

Jón Ingi er uppalinn í Norðurbænum en býr núna í Kópavogi ásamt fjölskyldu sinni. „Ég hef alltaf verið mikill Hafnfirðingur í mér og leita mikið hingað, t.d. á kaffihús og að gefa öndunum brauð með börnunum. Ég hef þó ekki starfað hér í bæ síðan í unglingavinnunni. Það er gott að vera kominn aftur,“ segir Jón Ingi, en hann er menntaður lögfræðingur, hefur starfað sem lögmaður og skrifaði lokaritgerð um persónuvernd og myndbirtingar í lögfræðináminu.

Skjalamöppur. Mynd af síðunni personuvernd.is.

Innleiðingarferli á nýju regluverki

Hjá Hafnarfjarðarbæ ber Jón Ingi ábyrgð á að sinna fræðslu, eftirliti og ráðgjöf varðandi persónuvernd til starfsmanna.. „Það er í gangi innleiðingarferli við að aðlaga starfsemi sveitarfélagsins að þessu nýja regluverki. Ég er að setja mig heildstætt inn í starfsemina, en um er að ræða fjölmargar stofnanir, deildir og svið. Ég þarf að ná ákveðinni yfirsýn og um hvaða upplýsingar er verið að vinna með á hverjum stað,“ segir Jón Ingi og bætir við að ólíkt sé farið með slíkar upplýsingar hjá t.d. sveitarfélagi eða  banka. „Bærinn þarf t.d. vissar upplýsingar til að geta veitt hina og þessa þjónustu í samræmi við lögbundið hlutverk sitt. Og þá má aðeins vinna með þær í þeim tilgangi. Bankastofnanir veita lán og fá upplýsingar en vilja einnig geta  nýtt upplýsingarnar  í markaðslegum tilgangi. Lögin eiga að tryggja að við höfum meiri stjórn á hvernig aðilar nota okkar persónuupplýsingar og hvaða efni er miðlað til annarra.“

Fólk á að finna fyrir meira öryggi og vernd

Persónulöggjöfin er mikið í umræðunni í samfélaginu og ákveðin vitundarvakning er að eiga sér stað. Jón Ingi segir það ósköp skiljanlegt, með hliðsjón af örri tækniþróun. „Það er gríðarlegt magn upplýsinga sem einstaklingar og fyrirtæki búa yfir. Regluverkið er strangara en meginreglurnar eru samt að miklu leiti óbreyttar. Lagagrundvöllur þarf að vera fyrir allri vinnslu persónuupplýsinga. Fólk á að finna fyrir meira öryggi og vernd.“

Eitt meginmarkmið þessara endurbóta er að veita einstaklingum betri vernd og færa þeim meiri ákvörðunarrétt. Að fólk hafi meiri stjórn á hvernig farið er með þeirra persónuupplýsingar, hvenær og í hvaða tilgangi.

Mynd af síðu Persónuverndar.

Hjá Hafnarfjarðarbæ er búið að skipa starfshóp þvert á svið bæjarins og gæta þess að starfsemin uppfylli þetta regluverk. „Ákveðin vinna hefur átt sér stað og mikil vinna fram undan. Það eru meiri kröfur um fræðsluskyldu varðandi það hvernig unnið er með upplýsingar og að þeim sé aðgangsstýrt með innra eftirliti.“ Þá sé skoðað hvort lagaheiheimildir séu til staðar til að vinna með þær upplýsingar sem til eru og er safnað. „Mentor-kerfið sem grunnskólar nota hefur verið endurbætt mikið með hliðsjón af regluverki um persónuvernd. Varðandi myndbirtingar af börnum þá þarf skólinn almennt að afla samþykkis foreldra ef það á að miðla þeim á heimasíðu skólanna eða samfélagsmiðla. Það er þó hvorki  að frumkvæði né hlutverk grunnskólayfirvalda að halda úti síðu með skólalífi. Sú krafa hefur aðallega komið frá foreldrum.“

Tilgangur laganna ekki að stöðva myndatökur

Í lögunum eru síðan sérákvæði um fjölmiðla því tjáningarfrelsi fjölmiðla er almennt ríkara en fyrirtækja og einstaklinga. „Er þar talað um rýmkað tjáningarfrelsi í þágu fjölmiðla, lista og bókmennta. Lykilmælikvarðinn er að myndatakan sé í málefnalegum tilgangi t.d. í þágu bæjarlífsins, þá má fjölmiðillinn taka myndir af fólki og birta. Fólk verður bara að láta vita ef það vill ekki vera á mynd.“ Talið færist yfir í tækifærismyndir, t.d. á samfélagsmiðlum. „Tilgangur laganna er ekki að stöðva myndatökur á almannafæri, heldur tryggja persónuvernd. Ekki taka myndir af fólki í annarlegum aðstæðum eða í einkaerindum. Fólk ætti að hafa það í huga þegar það vistar myndir á Facebook, þá fer fram viss vinnsla persónuupplýsinga og myndirnar hýstar  einhvers staðar út í heimi og þú hefur enga stjórn á því hvernig unnið er með myndirnar í framhaldinu.“

Er persónuverndarfulltrúinn sjálfur á Facebook? „Nei, það er ég ekki.“ segir Jón Ingi og hlær. „Það hefur samt ekkert að gera með starfið mitt eða persónuvernd. Ég fékk bara leið á þessu. Ég sé það mikilvægasta í gegnum konuna mína þar. Að öllu gamni slepptu þá eru þessi lög sett í þágu einstaklinganna. Gott er að hafa það í huga þegar  fólk rekur sig á strangara regluverk s.s. aukin krafa um að sýna skilríki þegar það veitir deili á sér. Það þýðir ekkert að pirra sig á því. Ég hvet svo alla til að leita sér ýmissa handhægra upplýsinga og fræðslu á vefsíðunni www.personuvernd.is.“