Mæðgurnar Kristrún Hauksdóttir og Emma Dröfn Kristrúnardóttir, auk Elínar Óskar Magnúsdóttur, eru í hópi kvenna sem hittist á miðvikudagskvöldum á kaffihúsinu Pallett og prjónar flíkur fyrir heimilislausa. Hópurinn, sem nefnist Vinaprjón, varð til eftir að Kristrún setti færslu inn á Facebook síðuna Handóðir prjónarar í júlí. Fjarðarpósturinn kíkti á Pallett.

Það fer afar vel um hópinn sem hittist á miðvikudagskvöldum á Pallett. Þær segja þjónustuna þar alveg einstaka.

Virkilega fallegt og hlýlegt handverk.

„Ég sat heima að horfa á fréttirnar í sjónvarpinu á föstudagskvöldi og þar var verið að tala um bágar aðstæður heimilislausra. Senn kæmi vetur og sýnt frá tjaldræflum í Öskjuhlíð, Laugardal og víðar. Mér fannst ég vel geta a.m.k. prjónað eina ullarpeysu eða svo og setti færslu inn á síðuna Handóðir prjónarar. Það varð algjör sprenging og a.m.k. 200 manns vildu strax taka þátt,“ segir Kristrún og viðurkennir að hafa orðið steinhissa á öllum þessum viðbrögðum. Í kjölfarið var stofnaður Facebook hópurinn Vinaprjón og eru 300 manns meðlimir, af báðum kynjum þótt konurnar séu ívið fleiri. Og það er meira að segja komin Akureyrardeild.

Konukot, Gistiskýlið og Frú Ragnheiður

Kristrún segir að hópnum sé oft gefinn lopi og sumir komi með sinn eigin til að prjóna úr peysur, húfur, sokka og vettlinga og síðan sé því skipt því bróðurlega á milli Konukots, Gistiskýlisins og Frú Ragnheiðar. Hver og ein ráði þó hvert flíkin fer sem hún býr til. „Við söfnum í pappakassa og skilum honum þegar hann er fullur. Ég hef líka beðið þessa staði um að láta vita þegar vantar eitthvað sérstaklega. Það er óþarfi að bera í bakkafullan lækinn þegar eitthvað annað vantar. Algengast er að það vanti peysur t.d. hjá Frú Ragnheiði. Flíkurnar eru í ýmsum stærðum og aðalatriði að þær séu hlýjar.

„Ég hef leitað til fyrirtækja með að styrkja okkur til að kaupa efni, en það hefur ekki gengið vel. Fólk hefur þó verið að senda okkur bæði lopa og fullunnar flíkur og gefa okkur ýmislegt, sem er frábært. Þetta mjatlast inn. Flíkurnar sem við gerum eru líka fallegar. Þetta á ekkert að þurfa vera úr afgöngum því þetta fólk þarf að vera í fallegum flíkum eins og aðrir. Mig grunar líka að þótt við séum að reyna að vera duglegar þá þarf svo stór hópur hlýjan fatnað,“ segir Kristrún.

Blaðamaður viðurkenndi að dauðlanga í aðra peysuna, enda ofboðslega fallegar. Gott að þær eiga eftir að hlýja einhverjum í vetur.

„Að prjóna er góð núvitund“

Viðmælendurnir þrír eru sammála um að Vinaprjón sé skemmtilegur og góður félagsskapur. „Það skiptir máli að fara út og hittast og við erum með þetta sameiginlega áhugamál og markmið. Það eru engar kvaðir og þau koma bara sem vilja. Það kom rót á þetta því okkur vantaði stað til að hittast. Hér varð niðurstaðan og engin okkar sem þarf að bjóða heim eða bera ábyrgð. Það er svo notalegt að sitja hérna og eigendur Pallett taka alltaf frá sófahorn fyrir okkur,“ segir Kristrún og hvetur fleiri, bæði karla og konur, til að bætast í hópinn. Og þótt einhver mæti ekki á Pallett, þá sé fólk bara víða að prjóna flíkur fyrir þetta góða málefni. Elín Ósk bætir við þetta: „Fyrir mér er það að prjóna núvitund. Og að prjóna til góðs gefur enn betri tilfinningu.“

Fyrir áhugasama er nóg að mæta með prjónana á miðvikudagskvöldum á Pallett kl. 20. Allir eru meira en velkomnir. Hér má finna Facebook síðu Vinaprjóns.

Myndir OBÞ