Juliet Björnsson fæddist á Sri Lanka árið 1980, en vegna stríðsátaka þar fluttust hún og foreldrar þaðan til Þýskalands og síðar til Kanada. Þar kynntist hún eiginmanni sínum, Hafnfirðingnum Hauki Björnssyni, og þau búa við Ölduslóð ásamt börnum sínum þremur.  Juliet er fulltrúi í Fjölmenningarráði Hafnarfjarðarbæjar og vill efla tengsl og upplýsingaflæði til íbúa af erlendum uppruna í bænum. Við hittum Juliet á kaffihúsinu Norðurbakkanum, en hún mun einmitt standa að slíkri samveru þar 16. október kl. 20. 

Juliet og Haukur kynntust í MA námi í Toronto, þar sem foreldrar Juliet og systkini búa, og létu pússa sig saman árið 2005. Eftir það lá leiðin til Íslands. „Fyrsta barnið okkar fæddist hér á landi og eftir hrunið 2008 fluttum við aftur til Kanada og vorum þar í sjö ár. Það var þó alltaf á dagskrá að flytja aftur til Íslands. Það gerðum við fyrir þremur árum,“ segir Juliet og tekur fram að hún hafi einfaldlega loksins fest rætur. „Ég var alltaf að flytja með foreldrum mínum og fékk loks þá tilfinningu hér að vera komin heim. Við erum ung fjölskylda og ég vil ala börnin upp hér því okkur líður öllum mjög vel við Ölduslóð og börnin eru ánægð. Þau eru 6, 8 og 11 ára.“

Með foreldrum sínum árið 1981.

Allt fer fram á ensku í vinnunni
Juliet segir að til að líða sem best sé einnig mikilvægt að finna vinnu sem hægt er að blómstra í. Hún er líffræðingur, lærði umhverfisskipulagsfræði og var verkefnastjóri hjá Almennu verkfræðistofunni í Kanada. Í dag er Juliet verkefnastjóri hjá Össuri hér á landi, nánar tiltekið í þróunardeild. „Þar fer allt fram á ensku en ég vil tala meiri íslensku. Ég tala ensku við manninn minn og börnin, þótt þau tali fullkomna íslensku. Foreldrar mínir tala ekki íslensku og tala því við börnin mín á ensku.“

Með fjölskyldunni á góðri stundu.

Styður hvert annað og samfélagið saman
Hjá Juliet kviknaði áhugi á að vinna í Fjölmenningarráði og vera hluti af samfélaginu. „Til þess verð ég að tala íslensku. Fjölmenning er ekki bara fyrir útlendinga til að kynnast Íslandi og Íslendingum. Hún er líka fyrir Íslendinga til að kynnast okkar menningu, tungumálum og hefðum. Þetta styður hvert annað og samfélagið saman. Ég kynnist mörgum pörum hjá Össuri sem kannski hafa búið hér í sjö ár og finnst ennþá erfitt að tala íslensku vegna þess að þau tala sitt mál saman og ensku í vinnunni. Það er svo erfitt að hafa eitthvað fram að færa ef við getum ekki spjallað við Íslendinga, verið hluti af hópum sem hittast og slíkt,“ segir Juliet og leggur áherslu á að henni finnst afar gefandi að skipuleggja og virkja það besta í fólki. „Ég vil endilega að fólk tali íslensku við mig og ekki vera feimið við að leiðrétta mig.“

Hér er viðburðurinn á Facebook. 

Mynd frá Össuri/OBÞ

Aðrar myndir eigu í Juliet