Á síðasta bæjarstjórnarfundi lagði bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir fram tillögu í nafni Sjálfstæðisflokksins þess efnis að varið yrði 300-400 milljónum á ári næstu fjögur árin í uppbyggingu tveggja knattspyrnuhúsa.

Innistæðulaus tékki í gleðibanka Sjálfstæðisflokksins

Dagana fyrir bæjarstjórnarfundinn kom bæjarfulltrúinn fram í útvarpi og blöðum og talaði með þeim hætti að tillagan yrði að öllum líkindum samþykkt. Augljóst er að um sjónarspil var að ræða þar sem engin innistæða virðist hafa verið fyrir þeim fullyrðingum sem farið var fram með. Fjárhagsstaða bæjarins gefur ekki tilefni til slíkra yfirlýsinga og ljóst var að tillagan hlyti ekki stuðning í bæjarstjórn, hvorki hjá samstarfsflokknum Bjartri framtíð né minnihlutaflokkunum, Samfylkingu og Vinstri grænum. Tillagan hlaut ekki brautargengi þar sem aðrir fulltrúar í bæjarstjórn höfnuðu þeirri óábyrgu hegðun sem bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sýndu til þess eins að slá ryki í augu fólks og keyra upp í kosningagír.

Óábyrg fjármálastjórn

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna töldu bæði óábyrgt og ómálefnalegt að styðja við þessa tillögu og greiddu henni því ekki atkvæði. Við töldum það ómálefnalegt þar sem vinna við fjárhagsáætlun er ekki hafin og því hefur tillagan ekkert formlegt gildi umfram aðrar hugmyndir sem þar koma fram. Samþykkt tillögunnar hefði því falið í sér fölsk skilaboð til bæjarbúa um forgangsröðun verkefna. Við töldum það óábyrgt þar sem ekki hefur verið lagt mat á það hvaðan fjármunirnir eigi að koma, eða hvaða verkefni önnur eigi að víkja á móti. Þá töldum við það ennfremur ósanngjarnt að ganga svo freklega framhjá nýlegri samþykkt Íþróttabandalags Hafnarfjarðar um forgangslista framkvæmda þegar hlutverk bæjarstjórnar væri miklu frekar að fara yfir mögulega uppbyggingu íþróttamannvirkja í samvinnu við bandalagið.

Freki karlinn í bæjarstjórn

Það er með ólíkindum hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur gengið fram í þessu máli, bæði gagnvart bæjarbúum en ekki síður samstarfsflokknum í bæjarstjórn. Það hlýtur að hrikta í stoðum meirihlutasamstarfsins þegar annar flokkurinn fer fram með slíkum yfirgangi. Krafa bæjarbúa hlýtur að vera að fá úr því skorið hvort meirihlutasáttmálinn standi og hver haldi raunverulega á valdataumunum í Hafnarfirði.

Bæjarfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar:

Adda María Jóhannsdóttir, Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir, Gunnar Axel Axelsson og Margrét Gauja Magnúsdóttir.