Fulltrúar minnihlutaflokkanna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar gagnrýna harðlega málsmeðferð varðandi uppbyggingu í Kaplakrika, á svæði Fimleikafélags Hafnarfjarðar. Í yfirlýsingu frá aðal- og varabæjarfulltrúum Bæjarlistans, Samfylkingarinnar og Viðreisnar segir að málsmeðferð varðandi uppbyggingu í Kaplakrika hafi einkennst af flýti, upplýsingaskorti, samráðsleysi og eftiráskýringum.

„Úrskurður heilbrigðisráðherra staðfestir að málsmeðferð meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar gefi tilefni til að málið verði tekið til nánari skoðunar á grundvelli 112 gr. sveitarstjórnalaga sem kveða á um frumkvæðisathugun.

Í því felst að rökstuðningur Hafnarfjarðarbæjar og andmæli við kærum bæjarfulltrúa í minnihluta er ekki nægjanlegur til að fella málin niður.

Vert er að taka fram að enn hefur ekki verið sýnt fram á í hvað 170 milljónir sem greiddar hafa verið til FH hafa farið og fyrirspurnum okkar frá því í ágúst hefur ekki öllum verið svarað með fullnægjandi hætti. Það er skylda okkar sem kjörinna fulltrúa að fylgjast grannt með fjármálum sveitarfélagsins og höfum við því tekið ákvörðun um að leita liðsinnis Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga til að knýja á um svör.

Áður en rammasamkomulagið sem liggur til grundvallar kærunum og væntanlegri frumkvæðisathugun var samþykkt hafði bærinn boðið út byggingu nýs knatthúss. Því ferli lauk með höfnun allra tilboða og kæru lægstbjóðanda. Úrskurður féll nú í nóvember í málinu, á þá leið að bærinn er skaðabótaskyldur, auk þess sem gerðar voru athugasemdir við málsmeðferð bæjarins sem ekki hafi staðist lög um opinber innkaup.

Allt ofangreint styður með afgerandi hætti þær ábendingar okkar að málsmeðferð varðandi uppbyggingu á Kaplakrikasvæðinu hefur einkennst af flýti, upplýsingaskorti, samráðsleysi og eftiráskýringum, og því fyllsta tilefni til að endurskoða málið í heild sinni.

Enn er ósvarað þeirri spurningu hvort málsmeðferðin standist lög um ábyrg fjármál sveitarfélaga. Væntanleg frumkvæðisathugun mun leiða það í ljós.“

Undir yfirlýsinguna rita:

Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Guðlaug Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi Bæjarlistans
Jón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar
Birgir Örn Guðjónsson, varabæjarfulltrúi Bæjarlistans
Sigrún Sverrisdóttir, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Vaka Ágústsdóttir, varabæjarfulltrúi Viðreisnar