Hjónin Hannes Arnar Ragnarsson og Halldóra Lúðvíkdóttir (Dóra) seldu snemma í sumar fyrirtækið sitt, Pylsubarinn í Hafnarfirði, eftir 19 ára farsælan rekstur. Þau urðu bæði 68 ára á árinu og höfðu áætlað að starfa í eitt og hálft ár í viðbót, en ákváðu að selja þegar rétti kaupandinn hafði samband. Þau eru afar stolt af Pylsubarnum og þakklát Hafnfirðingum fyrir móttökurnar og viðskiptin.

Auglýsing úr Fjarðarpóstinum árið 2004.

Hannes og Dóra stóðu á fimmtugu og á tímamótum um síðustu aldamót, ekkert sérstaklega bjartsýn um stöðu sína eftir rekstur stórra fyrirtækja í Keflavík. Þá hafði bróðir Hannesar, Guðmundur, rekið Pylsubarinninn í Hafnarfirði í 10 ár. „Við bræðurnir smíðuðum saman húsnæði Pylsubarsins sem bróðir minn rak frá árinu 1990, þar sem verslunarmiðstöðin Fjörður stendur núna. Þegar Fjörður var stækkaður var Pylsubarinn færður þangað sem hann er í dag. Ég man að Hafnfirðingar tóku honum strax opnum örmum,“ rifjar Hannes upp.

Framkvæmdastjórinn á gólfinu

Þau hjón ákváðu svo að kaupa Pylsubarinn og Hannes viðurkennir að sú ákvörðun hafi verið eilítið blendin. „Mér fannst svona fyrst um sinn eins og að ég væri að taka skref niður á við; sjálfur framkvæmdastjórinn vinnandi á gólfinu. Það tók mig smá tíma að kyngja því en svo var þetta bara eitt það allra besta sem við hjónin höfum gert. Ég lærði eitt sinn af gömlum manni að það er ekkert til svo ómerkilegt að ekki sé hægt að vanda sig við það. Ég vandaði mig alltaf, við hverja pylsu. Lagði mig alltaf fram. Ég naut þess að reka svona gott fyrirtæki og hef alltaf verið stoltur af því.“

Brosandi starfsfólk er góðs viti

Hjónin rifja upp góðar minningar frá rekstrinum og nefna að börnin þeirra þrjú afgreiddu öll þar um tíma. Lítil starfsmannavelta hafi verið þar nánast alla tíð. „Grunnurinn í svona fyrirtæki er að vera með fólk sem hægt er að treysta og veit hvað það er að gera. Við kappkostuðum að koma alltaf vel fram við starfsfólkið okkar og hafa góðan starfsanda. Margar stelpurnar unnu hér jafnvel í 10-12 ár. Þegar starfsfólk kemur brosandi í vinnuna, þá er það góðs viti. Það smitast til viðskiptavina,“ segir Hannes með áherslu. Þá hafi margir kúnnanna orðnir góðir vinir þeirra hjóna og oft mikið spjallað. Og að ungt fólk sé alveg einstaklega kurteist og jafnvel kurteisara en margt eldra fólk. „Fólk gat einnig að því vísu að við vorum alltaf með sama úrvalið og bestu gæðin. Ef gamli pylsupotturinn bilaði þá létum við gera við hann, því hann hitaði pylsurnar almennilega.“

Dóra tekur fram að þau séu einnig ánægð með hvað Hafnfirðingar tóku þeim vel. „Skýlið var alltaf opið á nóttunni en þar voru aldrei unnar á því skemmdir, öll þessi ár. Það var rétt eins og að Pylsubarinn hafi verið friðhelgur. Aldrei kveikt í gámum eða rusli eða neinu.“ Hannes bætir við: „Fólki þykir vænt um þetta fyrirtæki og við erum afskaplega þakklát fyrir það. Við höfum líka kynnst ótrúlega mörgu fólki í gegnum þetta.“ Þau hjón hafa búið í Hafnarfirði síðan árið 2003 og gætu ekki hugsað sér að búa annars staðar.

Hannes og Dóra við Pylsubarinn um það leyti sem þau seldu hann.

Kominn í góðar hendur

Þau viðurkenna að þeim var ekkert sama um hver tæki við rekstri Pylsubarsins. „Við vitum að hann er kominn í góðar hendur núna. Við sjáum auðvitað eftir fyrirtækinu en erum ánægð með nýja eigendur. Svo fylgdi hún María okkar víst líka með í kaupunum. Hún er einstaklega jákvæður og tryggur starfsmaður; skapandi og finnst gaman í vinnunni,“ segir Dóra. Hannes bætir við: „Ég held að 80-90% af okkar starfsfólki mætti kalla landsliðið í þessum bransa. Kjarninn sem starfaði hjá okkur í upphafi er saman í saumaklúbbi og halda alltaf hópinn.“

Dóra segir að það hafi alveg tekið sumarið fyrir hana að átta sig á því að hún væri ekki að svíkja lit, sjá um laun og vaktir. „Vorum á kafi í þessu og þetta var mikið til líf okkar í þessi ár.“ Hannes bætir við að endingu: „Það þarf ekki að reka stórt fyrirtæki til að ganga vel. Ég held að virðing hafi verið borin fyrir Pylsubarnum, m.a. vegna þess að við gengum alltaf óaðfinnanlega vel um sjálf, inni sem úti. Og við völdum gildin okkar vel og létum þau skipta máli. Pétur veit að hann má hringja alltaf í mig ef eitthvað er.“

 


Aðalmynd: OBÞ
Mynd frá í sumar: Í einkaeigu

Auglýsing úr Fjarðarpóstinum frá árinu 2004 af Tímarit.is