Ágústa Arna Sigurdórsdóttir hefur í hálft ár skrifað greinar og viðtöl, öðru hverju, í Fjarðarpóstinn. Hún er með BA gráðu í félagsfræði og lauk MA prófi í blaðamennsku frá HÍ. Hún býr í Fossvoginum og mætti sem blaðamaður á fund um málefni fatlaðra í Hafnarborg í apríl. Þetta er saga hennar frá þeim degi.

Ég fæddist fötluð. Af þeim sökum hafa málefni fatlaðs fólks alltaf verið mér hugleikin. Ég fæddist með möbíus heilkenni sem lýsir sér í skertu jafnvægisskyni og erfiðleikum með tal vegna stams. Þrátt fyrir mína fötlum komst ég alla minna ferða minna á tveimur jafn fljótum og var ekki mikið að velta fyrir mér aðgengismálum almennt. Hvort það vantaði ramp hér eða þar eða hvort einstaklingur í hjólastól kæmist inn í verslanir í miðborg Reykjavíkur. Eða hvort þeir kæmust í heimsókn til vina  sinna með góðu móti.

Ég að klára útskriftarafurð mína í meistaranáminu, vorið fyrir slysið.

Slys umturnar lífinu

Sumarið 2016 lendi ég í alvarlegu slysi með þeim afleiðingum að ég hlýt mænuskaða. Sem þýðir að ég verð bundin í hjólastól það sem eftir er. Slysið umturnaði lífi mínu algjörlega og tala ég oft um hvernig lífið var fyrir slys og hvernig það er eftir slysið. Enda er þetta tvennt eins og svart og hvítt. Við það að setjast í hjólastól þurfti ég að fara að velta fyrir mér hlutum sem ég hafði aldrei þurft að spá í. Kemst ég á þá staði sem mig langar að fara á? Kæmist ég í heimsókn til vina minna? Hvernig kæmist ég á áfangastað? Þarf ég að reið mig á ferðaþjónustu fatlaðra? Mun ég geta keyrt bíl? Mun ég geta búið í sjálfstæðri búsetu? Hver eru mín réttindi í frumskógi kerfisins? Spurningarnar voru óteljandi.

Ein af fréttum um slysið. Skjáskot af vef RÚV.

Ásamt foreldrum mínum, Sigurdór Má Stefánssyni og Guðbjörgu Fríðu Guðmundsdóttur. Þau hafa staðið með mér í gegnum súrt og sætt og alltaf haft trú á mér.

Þétt setið í Hafnarborg

Mánudaginn 30. apríl efndi Öryrkjabandalag Íslands til fundar með öllum framboðum fyrir sveitastjórnarkosningarnar undir yfirskriftinni Réttur fatlaðs fólks í sveitarfélögum. Á fundinum var farið yfir áherslur flokkana í málefnum sem varða líf fatlaðs fólks, svo sem búsetu, atvinnu, NPA, skólamál, aðgengi, ferðaþjónustu, frístund, svo eitthvað sem nefnt. Fundurinn var haldinn í Hafnarborg síðdegis á mánudegi og var bekkurinn þéttsetinn. Ég ákvað að nýta mér ferðaþjónustuna til að komast á fundinn þar sem ég bý í nágranna sveitarfélagi Hafnarfjarðar en bíllinn átti að koma og ná í mig tuttugu mínútum áður en fundirinn byrjaði.

Auglýsing um fundinn.

Mínúturnar liðu

Okkur sem notum ferðaþjónustuna er ráðlagt að vera komin fram í anddyri þar sem við bíðum, að minnsta kosti tíu mínútum áður en bíllinn kemur. Því var ég komin fram um hálf fimm svo ég myndi nú alveg örugglega ekki missa af bílnum. Klukkan silaðist áfram og tíu mínútur liðu, svo fimmtán mínútur og svo tuttugu án þess að neitt bólaði á bílnum. Þannig varð klukkan orðin fimm og fundurinn byrjaður. Fimm mínútur liðu þar til ég hringdi í þjónustuver Strætó til að athuga hvort langt væri í bílinn. Þá var mér tjáð að bíllinn væri rétt ókominn.

Ætlaði ekki að mæta of seint

Enn liðu nokkrar mínútur þar til bíllinn kom og en þá var klukkan orðin tíu mínútur yfir fimm. Bíllinn var því hálftíma of seinn og ég orðin of sein á fundinn. Mér átti eftir að seinka enn meira enda um háannatíma í umferðinni og ferðlagið gæti tekið lengri tíma en vanalega. Af þessum sökum mætti ég hálftíma of seint fundinn. Vissulega ætlaði ég að mæta á réttum tíma en það er ekki við öllu séð.

Ég reyni mikið að taka þátt í samfélaginu og læt fátt stoppa mig. En raunveruleiki minn er samt bara eitthvað sem ófatlaðir geta ekki almennilega sett sig inn í.

Getur skapað vandræði

Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er ekki auðvelt fyrir ferðaþjónustuna að halda áætlun þegar umferðin í borginni er hvað mest og flestir á leiðinni heim úr skóla og vinnu. Á hinn boginn eru margir sem stóla á ferðaþjónustuna eingöngu og getur það skapað mikil vandræði ef bíllinn kemur of seint. Þannig gæti viðkomandi misst af læknatíma eða komið of seint í vinnu eða á mikilvæga fundi (eins og undirrituð) eða á aðra viðburði.

Tekið af síðu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Óskilvirk þjónusta

Í raun ætti ég að nýta mér ferðaþjónustuna í mun meiri mæli en ég geri í stað þess að nota leigubíla sem kosta skildinginn. En vegna þess hve ferðaþjónustan er oft á tíðum óskilvirk þá nota ég hana eins lítið og ég kemst upp og ég get.

Fyrir því eru nokkrar ástæður. Klukkan hálf tvö á laugardegi gæti mér dottið í hug að skreppa í Fjörðinn. Ég á ekki pantaða ferð með ferðaþjónustunni og ef ég myndi panta hana klukkan hálf tvö fengi ég bílinn tveimur klukkustundum seinna eða klukkan hálf fjögur. Ég þyrfti að panta bílinn til baka með að minnsta kosti tveggja klukkustunda fyrirvara. Þegar bíllinn loksins kæmi væri ég ekki tilbúin til að fara heim. Því hef ég oft freistast til að taka leigubíl í stað þess að nota ferðaþjónustuna. Þá get ég farið á staðinn þegar mér dettur í hug og farið heim þegar mér dettur í hug.

Náði ekki nafninu

Það er komið nóg af útúrdúrum þannig við skulum bregða okkur aftur á fundinn í Hafnarborg. Þegar ég loksins kem á fundinn er fulltrúi frá Þroskahjálp að flytja stutta tölu um samning Sameinuðu þjóðana um réttindi fatlaðs fólks en samningurinn hefur enn ekki verið lögfestur hér á landi. Vegna þess hversu seint ég kom þá náði ég ekki nafninu á fulltrúa Þroskahjálpar. Þá kynnti formaður Öryrkjabandalags Ísland, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, könnun sem Gallup gerði á viðhorfum á þeirri þjónustu sem sveitarfélögin veita fólki með fötlun. Er Þuríður Harpa hafði lokið málir var komið að frambjóðendum að kynna sig og áherslur sínar í málefnum fatlaðs fólks en átta framboð verða í kjöri þegar gengið verður til sveitastjórnarkosninga seinna í þessum mánuði.

Hafnarborg, hægra megin. Þar sem fundurinn fór fram. Mynd/OBÞ

Keimlíkar áherslur

Áherslur flokkana er varðar málefni fatlaðs fólk voru að mörgu leyti keimlíkar þó svo frambjóðendurnir vildu fara ólíkar leiðir þegar kæmi að ná fram breytingum í málaflokknum. Frambjóðendurnir komu meðal annars inn á skóla án aðgreiningar, búsetumál fatlaðs fólks, fjölgun NPA samninga en flestir voru sammála um að fjölga ætti slíkum samningum og að í sveitarstjórnum ætti að taka mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Flóknar og ómarkvissar spurningar

Eftir að frambjóðendur höfðu flutt sínar framsögur var komið að því að taka á móti spurningum úr sal. Sá hluti fundarins varð mjög fljótt frekar ómarkviss. Fyrst var borin fram ein spurning en svo var skeytt aftan við hana einum til tveimur spurningum í viðbót.  Spurningarnar urðu þannig mjög flóknar og voru frambjóðendur stundum ekki vissir um hvað var spurt um í upphafi. Fljótlega leiddist umræðan einnig út í óskylda hluti eins og byggingu íþróttamannvirkja þegar var verið að ræða byggingu á félagslegum íbúðum. Þessi hluti fundarins skildi akkúrat ekki neitt eftir hjá mér vegna þess að ég var mjög fljót að tapa þræðinum, eins og frambjóðendurnir.

Engnir táknmálstúlkar eftir klukkan sjö

Þegar klukkan sló sjö þurfti ég að fara af fundinum, þó honum væri ekki lokið. Ég var ekki svona æst í að ná kvöldfréttunum á RÚV heldur kom bíll frá ferðaþjónustunni að ná í mig tíu mínútur yfir sjö. Á slaginu sjö var einnig spurt hvort einhverjir væru eftir í salnum sem þurftu á túlkaþjónustu að halda vegna þess að túlkarnir þurftu að fara! Aðgengismál snýst ekki aðeins um að komast inn og út úr byggingum heldur einnig um að aðgengi að upplýsingum og geta tekið þátt í fundum sem þessum með aðstoð túlka. Hefði heyrnarlaus einstaklingur verið í salnum eftir að túlkarnir fóru þá hafði viðkomandi ekki nein tök á því að vita hvað væri að eiga sér stað. Sem er engan veginn boðlegt.

Aksturþjónusta Strætó Bs. Mynd/Þroskahjálp

Bíllinn á undan áætlun

Ég var komin út úr Hafnarborg  nokkrar mínútur yfir sjö og bíllinn minn var að renna í hlað um leið og ég kom út. Þannig að bíllinn var á undan áætlun í það skiptið. Til að gæta allrar sanngirni þá gerist það mjög oft að bílarnir eru á undan áætlun. Hins vegar er ekki gott þegar bílarnir tefjast mikið og koma mun seinna en þeir eiga að koma og þú ert að koma mun seinna á áfangastað en þú hafðir ætlað.

Hluti Strandgötu. Mynd/OBÞ

Brunað eftir Strandgötunni

Bíllinn brunaði eftir Strandgötunni á leið sinni út úr Hafnarfirði. Mér varð starsýnt út um bílrúðuna hægra megin og virti fyri mér aðgengi að verslunum og kaffihúsum. Kannski ekki besta leiðin til að taka út aðgengismál og alls ekki vísindaleg en gefur samt einhverja mynd af aðgengismálum í miðbæ Hafnarfjarðar. Við of mörg hús og of margar verslanir voru háir þröskuldar eða tröppur sem gerir það að fólk í hjólastól komast ekki  inn í viðkomandi verslun. Með slæmu aðgengi er verið að hindra þátttöku fatlaðs fólk í samfélaginu og koma í veg fyrir að það geti gert hluti sem öllum finnast sjálfsagðir. Eins og að kíkja í verslun eða á kaffihús. Þannig er fötluðu fólki á vissan hátt útskúfað úr samfélaginu. Þessar hugsanir runnu í gegnum huga mér á meðan bíllinn frá ferðaþjónstunni bar mig í heimahagana.

 

Höfundur: Ágústa Arna Sigurdórsdóttir