Framsókn og óháðir tefla fram sterkum lista hér í Hafnarfirði. Um er að ræða einstaklinga sem hafa ólíka reynslu, bakgrunn og þekkingu. Ég ákvað að taka þátt í þessu verkefni með þessu frábæra fólki. Saman höfum við heimsótt vinnustaði, félagsamstök og fyrirtæki til að heyra hvað brennur á íbúum bæjarins. Heimsóknirnar hafa verið virkilega góðar og gáfu okkur kjöt á beinin í stefnuskrá sem nú liggur fyrir. Ég hvet ykkur, kæru kjósendur, til að kynna ykkur stefnuskrána okkar en hún er aðgengileg á fbsíðu flokksins.

Ég starfa sem skólastjóri í Öldutúnsskóla. Ég hef starfað sem skólastjórnandi frá 2004, fyrst á Grenivík, en frá 2008 hér í Hafnarfirði. Sú reynsla kemur til með að nýtast mér afar vel í störfum mínum eftir kosningar. Ég vona svo sannarlega að ég nái kjöri sem bæjarfulltrúi því ég hef mikinn áhuga á bæjarmálum og hef sterkar skoðanir á því hvernig við náum árangri. Góður árangur næst fyrst og fremst með samstöðu og samvinnu allra aðila, óháð meiri- eða minnihluta í bæjarstjórn. Við erum sterkari saman.

Fjölmargir hafa komið að máli við mig og spurt hvort ég láti af störfum sem skólastjóri ef ég næ kjöri sem bæjarfulltrúi. Svarið er einfalt: Nei, ég mun ekki hætta enda er hægt að samæma starf bæjarfulltrúa  með öðrum störfum. Sem bæjarfulltrúi mun ég starfa af heilindum fyrir bæjarbúa og leggja mig allann fram alveg eins og ég geri og mun gera áfram sem skólastjóri í Öldutúnsskóla.

Valdimar Víðisson, skólastjóri Öldutúnsskóla, skipar annað sætið á lista Framsóknar og óháðra.