Fjarðarpóstinum bárust töluverð viðbrögð frá bæjarbúum um ákvörðun fundar bæjarráðs Hafnarfjarðar í gærmorgun um hætta við fyrri áform um að bærinn reisi nýtt knatthús í Kaplakrika og kaupi í staðinn íþróttahús og knatthúsin Risann og Dverginn af FH. Bæjaryfirvöld og FH sömdu einnig um að íþróttafélagið taki að sér að byggja, eiga og reka væntanlegt knatthús. Við leituðum svara hjá fulltrúum meiri- og minnihlutans sem sátu fundinn, en þeir voru aðallega ósammála um að boðað hafi verið til fundarins á þessum tímapunkti. 

Samkvæmt ákvörðun fundar bæjarráðs mun Hafnarfjarðarbær greiða FH kaupverðið, 790 milljónir króna, í áföngum. Tillaga þessa efnis var samþykkt á fundi bæjarráðs í gærmorgun með þremur atkvæðum bæjarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og óháðra. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Bæjarráðsfulltrúar og áheyrnarfulltrúar flokkanna sem eru í minnihluta í bæjarstjórn mótmæltu því hvernig staðið væri að málum og töldu réttast að málið yrði rætt í bæjarstjórn.

Minni líkur á aukakostnaði og töfum á verklokum

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar svaraði fyrirspurn Fjarðarpóstins, fyrir hönd meirihluta bæjarstjórnar, um ástæðu þess að boðað hafi verið til fundar á þessum tímapunkti varðandi þessi mál, á þessa leið: „Bæjarráð fer með umboð bæjarstjórnar í tveggja mánaða sumarleyfi bæjarstjórnar og alkunna að oft þarf að boða til aukafunda í jóla- og sumarfríum til að afgreiða mál sem eru á borðum bæjarins. Málefni FH var eitt fjögurra mála á dagskrá þessa aukafundar.“ Aðspurð hvers vegna hætt hafi verið við fyrri áform og ákveðið að kaupa íþróttahús FH, Risann og Dverginn, segir Rósa: „Við teljum að þannig séu mestar líkur á að kostnaður Hafnarfjarðarbæjar við uppbyggingu knattspyrnuaðstöðunnar aukist ekki frá því sem kveðið er á um í fjárhagsáætlunum bæjarins og fyrirhuguð verklok tefjist ekki. En áfram er lögð áhersla á skýra eignaraðild bæjarins og félagsins í tilteknum mannvirkjum.“

„Bæjarstjórn á öll að koma að svona stórum ákvörðunum“

Sigurður Þ. Ragnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, telur orðum aukið eins og lýst er í frétt RÚV að miklar deilur hafir risið á bæjarráðsfundinum. Menn hafi einfaldlega rætt málin. „Sú niðurstaða sem fékkst með þessu rammasamkomulagi milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og FH er bænum hagfelld. Hún er um 300 milljónum króna ódýrari lausn heldur en ef gengið hefði verið að þeim tilboðum sem buðust í verkið þegar það var boðið út. Auk þess er þessi upphæð nokkuð nærri lagi við áður gerða kostnaðaráætlun. Það eitt og sér hlýtur að vera fagnaðarefni,“ segir Sigurður, en tekur þó fram að hins vegar fái meirihlutinn fullkomna falleinkunn þegar kemur að því hvernig málið var afgreitt. „Mál af þessari stærðargráðu á ekki að afgreiða í litlu fáskipuðu bæjarráði heldur á bæjarstjórn öll að koma að svona stórum ákvörðunum. Bæjarráð er skipað fimm bæjarfulltrúum og fundirnir eru lokaðir þannig að fólk getur ekki fylgst með umræðum um málið. Bæjarstjórnarfundir eru hins vegar skipaðir öllum kjörnum bæjarfulltrúum, opnir fyrir öllum og sendir út á vefsíðu bæjarins og er því hægt að fylgjast með umræðum um málið.“

Sigurður bætir svið að honum finnist sú afgreiðsla, að láta fáskipað stjórnvald þ.e. bæjarráð taka endanlega ákvörðum um svona risastórt og mikilvægt mál, vera á svig við alla góða stjórnsýsluhætti. „Það hefði tekið fjóra daga að kalla saman bæjarstjórn, en það er lágmarks fyrirvari við boðun bæjarstjórnarfunda. Sem sagt hefði ekki þurft að seinka málinu á nokkurn skapaðan hátt. Þess utan hefði það verið glæsilegri afgreiðsla á þessu mikilvæga máli. Það á ekki að afgreiða svona mál í einhverjum lokuðum herbergjum, fjarri öllu sólarljósi.“

Vinnur með fulltrúum meirihlutans í stað þess að fara í skotgrafirnar

Jón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar, segist vera sammála öðrum bæjarfulltrúum um að knatthús skuli rísa í Kaplakrika, eins og ráðgert var. „Ástæða þess að ég skilaði auðu í atkvæðagreiðslunni á fundinum um breytt áform var að við fengum það í gegn að tryggt væri að FH gæti ekki sótt aukið fé í bæjarsjóð ef framkvæmdir færu fram úr áætlunum, ásamt því að fá vilyrði fyrir því að gerð verði úttekt á því með hvaða hætti eignarhaldi á íþróttamannvirkjum væri best háttað fyrir bæjarsjóð. Ég hefði viljað sjá fleiri breytingar en það hefði verið ódýr pólitík að kjósa gegn mikilvægum varnöglum sem við fengum inn í samninginn. Það er okkar háttur að reyna að hafa áhrif til góðs og ég tel að Viðreisn hafi gætt hagsmuna bæjarsjóðs með því að vinna með fulltrúum meirihlutans í stað þess að fara í skotgrafirnar“

Hefði átt að afgreiða á vettvangi bæjarstjórnar

Friðþjófur Helgi Karlsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, lagði ásamt Guðlaugu Kristjánsdóttur, fulltrúa Bæjarlistans, fram á fundinum tillögu um að vísa málinu til fundar bæjarstjórnar eftir tvær vikur. Sú tillaga var felld með þremur atkvæðum meirihlutans gegn tveimur atkvæðum minnihlutans. Friðþjófur Helgi sat, eins og Jón Hákon, hjá í atkvæðagreiðslu um ákvörðun fundar bæjarráðs um breytt áform og spurður um ástæðu þess sagði hann: „Fyrst og fremst vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að málið hefði átt að afgreiða á vettvangi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.“

 

„Óútskýrður flýtir og gerræðistilburðir meirihluta“

Guðlaug Kristjándóttir, fulltrúi Bæjarlistans, segir, eins og Sigurður Þ. Ragnarsson, að hún myndi ekki lýsa umræðunum á fundi bæjarráðs sem „miklum deilum“, enda hafi hann farið fram málefnalega og í ró og spekt. Frekar hafi verið um að ræða óútskýrðan flýti og gerræðistilburði meirihluta. „Það eru ekki endilega deilur þegar fólk ræðir saman, óskar skýringa og vill fullvissa sig um að rétt sé staðið að málum. Bæjarráð var kallað úr fríi með sólarhringsfyrirvara til að fjalla um knatthús FH. Fyrir lá tillaga um að bærinn skyldi ekki koma að byggingunni, þvert á ársgamla stefnu um að bærinn tæki upp vandaðri vinnu og hefði 100% forræði á ferlinu.“ Ekki hafi fengist haldbær skýring á flýtinum og hafi tillagan verið keyrð í gegn með meirihlutavaldi. „Það er einmitt fyrirgreiðslupólitík af þessu tagi sem Bæjarlistinn vildi forðast með því að hafa áfram faglega ráðinn bæjarstjóra. Leitt að andi þeirra vinnubragða skuli víkja svona fljótt,“ segir Guðlaug.

Forsíðumynd/OBÞ