Ólafur Andri Davíðsson útskrifaðist af raunvísindabraut í Flensborg með meðaleinkunnina 9,89 og var dúx þriggja ára kerfisins í skólanum. Hann segir uppáhaldsfagið hafa, án efa, verið stærðfræði. Hann spilar á gítar, hefur áhuga á kvikmyndum og gæti vel hugsað sér að búa til tölvuleiki. Þá á hann tvíburabróður og einn yngri bróður.

Ólafur Andri, ásamt Magnúsi skólameistara, við útskriftina.

Þótt stærðfræði hafi verið í uppáhaldi hjá Ólafi Andra fannst honum samt eðlisfræðin líka mjög skemmtileg. Við spurðum hann um styrkeika hans: „Minn helsti styrkleiki er að ég gefst ekki auðveldlega upp við að ná einhverju sem ég vil ná. Það hefur hjálpað mér gríðarlega í náminu.“ Í haust stefnir Ólafur Andri á að fara í tölvunarfræði í HR og segist ekki hafa pælt í nákvæmlega hvað hann langi til að starfa við í framtíðinni. „Ég veit að mig langar að verða tölvunarfræðingur en það eru til mörg mismunandi störf innan tölvunarfræðinnar. Ég hef þó áhuga á forritun og að vinna við tölvuleikjagerð. Að komast í þess konar starf í framtíðinni væri æðislegt.“

Fallegir leikir með góðan boðskap

Þá finnst Ólafi Andra einnig gaman að skapa hluti, til dæmis hugbúnað í tölvu. „Það að búa til tölvuleiki er eitthvað sem heillar mig mjög. Ég gæti hugsað mér að búa til tölvuleiki sem eru fyrir alla aldurshópa. Mig langar að geta búið til fallega leiki með góða sögu og frábæra tónlist, leiki sem hefur mikil áhrif á fólk sem spila hann,“ segir Ólafur Andri, sem einnig spilar á gítar og kvikmyndir eru stórt áhugamál, sérstaklega vísindaskáldskapur og kvikmyndir með góða tónlist og góðan boðskap. Hann ætti því auðveldlega að geta fundið leið fyrir sköpun sína og hæfileika í framtíðinni.

 

Mynd af Ólafi Andra/OBÞ

Mynd úr Flensborg í eigu skólans.