Leikarinn og nýi Hafnfirðingurinn Björgvin Franz Gíslason stendur þessar vikurnar í framleiðslu á vefþáttaseríu um Hafnfirðinga og Hafnarfjörð, í samstarfi við Óla Björn Finnsson, sem slíkum málum er vel kunnur. Þeir félagar líta á þættina sem samfélagslegt verkefni og vilja með þeim vekja meiri athygli á því sem Hafnarfjörður hefur upp á að bjóða.

„Þessi bær er alveg svakalega fallegur og hér blómstrar svo margt. Mér fannst vanta enn fleiri gesti hingað svona dags daglega og þetta er mitt innlegg í það að vekja athygli á Hafnfirðingum og einhverju af því sem hér á sér stað og hvað bærinn hefur upp á að bjóða. Við förum dálítið djúpt í hvert atriði og vonumst til þess að sem flestir fái smjörþef af bænum og íbúunum,“ segir Björgvin, sem segist elska að gera efni fyrir sjónvarp og vef. Einn fastur vikulegur liður verður “Hafnfirðingurinn okkar” eða “Hafnfirðingur dagsins” (við erum enn að ákveða) og þar munu t.d. Svala Björgvinsdóttir, Margrét Eir Hjartardóttir og Þórhallur Sigurðsson (Laddi) segja frá einhverju frá æskuárum í bænum.

Fyrir framan Íshús Hafnarfjarðar, fyrsta fyrirtækið sem var heimsótt.

Framtíð sjónvarps á vefnum

Björgvin gerði vefefni í meistaranámi sínu í sjálfhönnuðu þverfaglegu námi (Master of Liberal Studies) í Minnesota í Bandaríkjunum. „Hluti af lokaverkefni mínu var að búa til þátt, fjárhagsáætlun og annað sem slíku fylgir. Námið var dálítið þannig að ég var með vissar hugmyndir um hvað mig langaði að gera og valdi svo kúrsa sem pössuðu við það. Lokaritgerðin var meira að segja um álfa!“ segir Björgvin og tekur fram að einn af kúrsunum hafi verið í uppáhaldi: Designing professional futures. „Framtíð sjónvarps er á vefnum og þar langar mig að söðla meira um og nýta námið, þekkinguna og reynsluna.“

Steindi Jr. og Jackass

Vefþættirnir um Hafnarfjörð verða stuttir og verða m.a. sýndir og þeim dreift af Facebook síðu sem gerð verður í kringum verkefnið. Björgvin og Óli Björn hafa áður unnið saman að kynningarmyndbandi fyrir Mountaineers of Iceland en Óli hefur m.a. unnið með Steinda Jr., Bam úr Jackass og fleirum að vef- og sjónvarpsefni. „Hann er garðyrkjufræðingur sem tók sér hvíld frá svona framleiðslu en ég er búinn að draga hann inn í þetta á ný. Við erum að stofna fyrirtæki saman í kringum þetta og ætlum að gera eitthvað sem okkur finnst skemmtilegt,“ segir Björgvin en þáttunum verður einnig dreift á Facebook síðu Hafnarfjarðarbæjar. „Við munum bjóða þeim sem vilja styrkja okkur að setja þættina á sína vefi og erum að leita til fleiri fyritækja í bænum til að koma inn í þetta. Fólk hefur verið mjög jákvætt og tekið okkur vel, en þetta hefði til að mynda ekki verið mögulegt nema fyrir styrkjum frá Hafnarfjarðarbæ og Álversins sem við erum gríðarlega þakklátir fyrir.“

Björgvin tekur fagnandi á móti góðum ábendingum um efni í þættina í netfangið bjorgvinfranz@gmail.com og einnig ef fyrirtæki vilja styrkja gerð þáttanna. Þegar er búið að gera þrjá þætti og var m.a. kíkt í heimsókn í Íshúsi Hafnarfjarðar. Fyrsti þátturinn verður sýndur 13 júlí og svo einn á viku eftir það. Svo er alveg opið að fjalla um önnur sveitarfélög líka í framhaldinu.

Myndir/Olga Björt.