Nú í vikunni var boðað til málþings um samstarf heimilis og skóla af hálfu Hafnarfjarðarbæjar.  Verkefni sem unnið hefur verið að á nýliðnum vetri og er svo sannarlega þarft.  Samstarf heimilis og skóla er hornsteinn þess að börnin okkar fái sem mest út úr skólagöngu sinni og geti horft jákvæðum augum til skólagöngu sinnar og skili sér sterk  á þann vettvang sem hugur þeirra stefnir til. Ábyrgð kennara og skólastjórnenda er mikil. En, ábyrgð okkar foreldra er ekki síður mikil.  Þegar átt er við með samstarfi heimilis og skóla þá er kannski ekki alveg ljóst til hvers er ætlast af foreldrum eða forráðamönnum.  Með því að skilgreina það hlutverk betur yrði það til heilla fyrir börnin okkar. Því bind ég miklar væntingar til ofangreinds verkefnis. Undirrituð sinnti  því hlutverki að vera formaður foreldrafélags  til nokkurra ára og setið í stjórn skólaráðs. Þar mátti sjá með eigin augum ávinning þess að vera með virka foreldra og virkt foreldrastarf.

 

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Það er þó ekki nóg að foreldrar séu virkir né að við höfum aðgang að góðum kennurum.  Bæjarfélagið þarf að hafa skilning á væntingum og þörfum barnanna. Á undangengnum fjórum árum hefur verið unnið markvisst að því að bæta hag barna okkar.  Sem dæmi  má nefna að sálfræðingum sem grunnskólabörn hafa aðgang að  hefur fjölgað. Frístundaakstur var tekinn upp að nýju, námsgögn er ókeypis og unnið er  að endurbótum á skólalóðum bæjarins sem komnar voru fyrir margt löngu á viðhald, svo fátt eitt sé nefnt. Að alast upp í Hafnarfirði er gott.  Hér er aðgengi að óspilltri náttúru, opnum leiksvæðum, sundstöðum og bókasafni sem við getum verið stolt af.  En alltaf má gera gott betra.  Höldum áfram með hafið verk.  Gerum saman Hafnarfjörð að enn betri  kosti fyrir barnafjölskyldur, þar sem við öllum getum lifað og leikið okkur saman.

Kristin Thoroddsen, varabæjarfulltrúi og skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði