Guðmundur Ingi Markússon.

Guðmundur Ingi Markússon, íbúi í Suðurbæ Hafnarfjarðar, hefur ásamt fleiri Suðurbæingum stofnað nýja vefsíðu gegn framkvæmdum á Fornubúðum, Sudurbakki.is, en Hafnarfjarðarbær hefur samþykkt byggingu 5 hæða háhýsa á hafnarkanti Flensborgarhafnar. Á mótmælasíðunni er fjöldi upplýsinga um skipulagið við Fornubúðir og upplýsingar fyrir bæjarbúa sem hafa áhuga á að gera athugasemdir við samþykkt bæjaryfirvalda, áður en frestur til þess rennur út 8. október. 

Guðmundur segir að fyrir utan einstaka mynd í bæjarmiðlum fyrir margt löngu hafi engar útlitsmyndir verið kynntar, ólíkt t.d. Dvergsreitnum, þar sem góðum þrívíddarmyndum var dreift. „Það var ekki ein einasta útlitsmynd sem fylgdi þegar „sýning“ með nýja deiliskipulaginu var sett upp í þjónustumiðstöðinni í ágúst. Jafnframt var mjög óljóst hvernig koma ætti á framfæri andmælum. Við töldum því rétt að taka saman myndir og upplýsingar svo fólk gerði sér grein fyrir hverslags skipulagsslys er þarna í uppsiglingu.“

Athugasemdum ekki sinnt eða svarað

Jafnframt segir Guðmundur að kallað hafi þurft eftir upplýsingum um málið hjá Hafnarfjarðarbæ með vísun til upplýsingalaga. „Við höfðum áður farið óformlegar leiðir, reynt að ná tali af bæjarfulltrúum á samfélagsmiðlum en engu var svarað. Þær myndir sem eru á síðunni er úr þessum gögnum sem við fengum. Þó vitum við að bærinn er með fleiri myndir í sínum fórum.“ Tveir íbúar í Suðurbæ hafi skilað andmælum áður en aðal- og deiliskipulagstillagan var samþykkt á fundir bæjarstjórnar 22. ágúst. „Á þeim fundi minntist meirihlutinn ekki einu orði á að athugasemdir hefðu borist; aðeins fulltrúi minnihlutans, Adda María Jóhannsdóttir tók það upp.“

Ganga erinda verktaka í stað bæjarbúa

Guðmundur segir að vilji mótmælenda sé að niðurstöður samráðsverkefnis með íbúum verði virt. „Skipulagslýsing Flensborgarhafnar frá 2016 byggði á tveggja ára samráði. Lóðin á Fornubúðum 5 var inni í því samráði og ein megin niðurstaðan var lágreist byggð í góðri sátt við nágrennið. Það er frábært að fá Hafró til Hafnarfjarðar, en það sem á að byggja þarna er langt umfram húsnæðisþörf stofnunarinnar. Þarna gengur bærinn erinda valdamikilla verktaka en ekki almennra bæjarbúa. Við getum bæði byggt yfir Hafró og virt samráð við íbúa. Og þetta varðar alla Hafnfirðinga. Miðbærinn mun aldrei verða samur verði þessar byggingar að veruleika óbreyttar,“ segir Guðmundur.

Hér er síðan.