Vel þekkt er að gróður og þá sérstaklega trjágróður, bætir hljóðvist og loftgæði og minnkar svifryk, jafnframt því sem hann skapar gott skjól fyrir veðri og vindum. Með því dregur trjágróður úr orkuþörf fyrir húsakyndingu og gerir útiveru notalegri og vistlegri. Þá hafa rannsóknir sýnt að trjágróður við umferðargötur dregur úr umferðarhraða og eykur þannig umferðaröryggi. Að þessu leyti stuðlar gróður og trjárækt að sjálfbæru samfélagi.

Gróður vinnur koltvíoxíð úr loftinu og hjálpar okkur með því að draga úr óæskilegri mengun og uppfylla hnattrænar skyldur okkar um minnkun gróðurhúsaáhrifa.

Nálægð við náttúruna og gróðursæld skapar vellíðan og dregur úr streitu. Víða í Hafnarfirði eru fallega grónar götur og útivistarperlur inn á milli. Hellisgerði, Víðistaðatún og svæðin við Ástjörn og Hvaleyrarvatn eru góð dæmi um slíkar perlur. Yngri hverfi bæjarins njóta ekki gróðurs í sama mæli og þau eldri og úr því vill Miðflokkurinn bæta með aukinni áherslu á gróður og trjárækt í bæjarlandinu og fjölskylduvæn gróin útivistarsvæði.

 

Arnhildur Ásdís Kolbeins

Höfundur skipar 5. sæti Miðflokksins í Hafnarfirði