Tónlistarmaðurinn Helgi Kristjánsson sendi nýverið frá sér lagið „Skýjabönd“ sem er af samnefndri plötu hans. Helgi blæs af því tilefni til útgáfutónleika í Bæjarbíói 4. október næstkomandi og eru það fyrstu sólótónleikar hans. Hann er m.a. þekktastur fyrir trommuleik í hljómsveit vinar síns, Ásgeirs Trausta. Helgi segir að efni plötunnar marki ákveðið uppgjör við líf sitt. 

Fyrsta minning Helga af tónlistaráhuga sínum er að sitja við stofuhátalarana þriggja ára gamall og hlusta á ‘Lífið er Ljúft’ plötuna hans Bubba og glamra á gítar með. „Ég man eftir að hafa upplifað algera alsælu þegar ég fór að átta mig betur á því hvað tónlist væri og hversu mikil áhrif hún hafði á mig. Ég varð algerlega dáleiddur frá degi eitt,“ segir Helgi.

Helgi við gítarsmíði.

Mamma fyrirmynd í samskiptum og mannrækt

Aðspurður segist hann eiga sér margar fyrirmyndir á mismunandi sviðum í lífinu. „Margar í tónlistinni og nokkrar í samskiptum og mannrækt. Þar nefni ég mömmu, Helgu Kristjánsdóttur, að sjálfsögðu. Svo Jonna, besta vin minn, sem er kvikmyndagerðarmaður og frömkvöðull af guðs náð. Brynjar Karl er annar stór áhrifavaldur í mínu lífi, en hann rekur rosalegt mannræktarprógramm sem kallast Key Habits. Svo er auðvitað pabbi mjög mikill áhrifavaldur, en hann hefur alveg ótrúlegan drifkraft og útsjónarsemi sem ég hef gegnsmitast af.“ Þess má geta að Helgi hefur einnig smíðað nokkur hljóðfæri, nánar tiltekið kassagítar, rafmagnsgítar, rafbassa, fjórar sneriltrommur, míkrófón og gítarmagnara. Helgi og faðir hans, Kristján Þorsteinsson, smíðuðu saman gítarinn sem er í aðalmynd þessa viðtals.

Helgi segir stærsta áhrifavald sinn í tónlistinni vera Ásgeir Trausta. „ Að miklu leyti er það vegna þess hversu nánir vinir við erum og þar sem við höfum svipaðan smekk og stillumst inn á sama tíðnisvið í tónlistinni.“ Helgi vann plötuna í Hljóðrita ásamt Ásgeiri. Helgi spilar á flest hljóðfærin og syngur en Ásgeir spilar á hljóðgervla, píanó og rafhljóðfæri. Þá hefur Helgi hefur komið víða við á sínum tónlistarferli en þá aðallega sem trommuleikari í hljómsveitunum Ásgeir, One Week Wonder, Hugar og fleirum.

Tónleikar í Bæjarbíó

Sjáumst í Bæjarbíói 4. okt! 👐

Posted by Helgi on Miðvikudagur, 26. september 2018

Myndbandið hér að ofan gerðu þeir Davíð Goði Þorvarðarson og Guðjón Ragnarsson.

Sambandsslit urðu drifkrafturinn

En um hvað er platan? „Þetta er uppgjör sem snýr að mér sem manneskju og hver ég var og á hvaða stað þegar ég samdi tónlistina. Ég var þá í öðru sambandi og þau sambandsslit höfðu gríðarleg áhrif á mig og urðu mér sem mesti drifkrafturinn fyrir þetta verkefni. Ég tók mig líka í gegn andlega og tileinkaði mér nýtt hugarfar sem opnaði augun mín upp á gátt gagnvart því að vera trúr sjálfum mér.“

Helgi segir það algerlega rafmagnaða tilfinningu að gefa út sína fyrstu sólóplötu og halda sína fyrstu sólótónleika. „Þetta er eitthvað sem ég er búinn að þrá mjög lengi. Núna þegar fer að líða að tónleikunum finn ég bara hvernig tilfinningalega veðráttan fer að magnast og eins og það sé skrúfað upp í stresskerfinu eins og góðu hátalarakerfi.“

Hljómsveitin sem spilar með Helga á tónleikunum er skipuð þeim Hjörvari Hans Bragasyni (bassi), Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni (píanó og hljóðgervlar), Bergi Einari (trommur) og Kristni Þór Óskarssyni (gítar).

Hér er hlekkur á Spotify síðu Helga.

Hér er hægt að nálgast miða á viðburðinn.