Niðurstöður viðhorfskannana Skólapúlsins í leik- og grunnskólunum gefa skýrt til kynna að nemendum í grunnskólum bæjarins líður vel, þeir lifa heilbrigðu lífi, eru virkir í námi og hafa gott sjálfsálit. Sveitarfélagið skorar hæst á meðal sveitarfélaga sem taka þátt í könnuninni varðandi þátttöku barna í leikskólastarfi án aðgreiningar. Þetta kemur fram á vefsíðu Hafnarfjarðarbæjar. 

Leik- og grunnskólar Hafnarfjarðar taka allir virkan þátt í Skólapúlsinum, verkfæri sem ætlað er til aðstoðar við innra og ytra mat á starfi og starfsumhverfi íslenskra skóla. Niðurstöður viðhorfskannana, fyrir skólaárið 2017-2018, liggja nú fyrir og koma nokkuð vel út fyrir sveitarfélagið í heild sinni. Á sama tíma opna þær á tækifæri til þróunar á ákveðnum sviðum þar sem hver og einn skóli rýnir sínar niðurstöður, gerir úrbótaáætlanir og vinnur með sínu fólki yfir skólaárið.

Mynd frá Skarðshlíðarskóla/OBÞ.

Tækifæri til sóknar og umbóta í öflugu samstarfi alls samfélagsins

Viðhorfskönnun Skólapúlsins sýnir það sem vel er gert innan beggja skólastiganna í Hafnarfirði og varpar á sama tíma ljósi á þau tækifæri sem eru til betrumbóta. Það er öllum hlutaðeigandi kappsmál að grunnskólakerfið í Hafnarfirði sé áhugavert og eftirsóknarvert og að stöðug skólaþróun sé í gangi. Niðurstöður færa skólunum og sveitarfélögunum haldbærar upplýsingar sem nýta má til að bæta skólastarfið og þakka fyrir það sem vel er gert. Tilgangurinn með samanburði er að skólarnir geti nýtt niðurstöður og samanburð til að sjá hvað tekst vel til og finna sér sóknarfæri og umbótaverkefni. Einnig að aðrir hagsmunaaðilar skólastarfsins s.s. foreldrar og fræðsluyfirvöld fái yfirsýn yfir stöðuna og geti lagt sitt að mörkum til aðstoðar. Mjög misjafnt er hvort íslenskir skólar og sveitarfélög, og þá hvaða sveitarfélög, kjósa að taka þátt í Skólapúlsi. Grunnskólar Hafnarfjarðar hafa verið þátttakendur í könnun síðan 2013 en leikskólarnir síðan 2017 og til fyrirmyndar að til séu gagnsæjar og samræmdar mælingar fyrir alla þá skóla sem reknir eru af sveitarfélaginu.

Leikskólar Hafnarfjarðar – aðlögun barna á leikskóla til fyrirmyndar

Leikskólar Hafnarfjarðar eru á eða yfir meðaltali í öllum þáttum könnunar. Búið er að brjóta niðurstöður niður í fjóra flokka. Hvað varðar daglegt skólastarf, námsumhverfi og samskipti við foreldra eru hafnfirskir leikskólar að koma út á meðaltali við aðra íslenska leikskóla. Leikskólar Hafnarfjarðar eru í tveimur þáttum meðal 25% sveitarfélaga með hæstu niðurstöðurnar. Bærinn er í 3. sæti af 17 mögulegum hvað varðar ánægju foreldra með aðlögun við leikskólabyrjun og í hópi þeirra sveitarfélaga sem eru með hagstæðustu útkomuna á þessum þætti. Bærinn er í 1.sæti af 17 mögulegum hvað varðar þátttöku barna í skólastarfi án aðgreiningar. Þetta gefur m.a. til kynna að skólarnir séu vakandi fyrir því að öll börn tilheyri barnahópnum og að börnum af ólíkum uppruna og menningu sé mætt á sanngjarnan hátt sem og að réttindi beggja kynja séu virt. Niðurstöður könnunar gefa til kynna að ástæða sé til að skoða þann mun sem er milli hafnfirskra leikskóla á fjölda þeirra barna sem njóta sérfræðiþjónustu og sérstaks stuðnings, gagngert til að finna skýringar þannig að veita megi viðeigandi aðstoð og hrinda af stað fleiri uppbyggjandi verkefnum ef ástæða þykir til.

 

Frá afhendingu Grænfána í Norðurbergi/OBÞ.

Leikskólar Hafnarfjarðar eru 17 talsins og börn á aldrinum tveggja til fimm ára með lögheimili í bænum rúmlega 1500. Viðhorfskönnun var framkvæmd meðal foreldra nú í ár á meðan könnun 2017 var lögð fyrir starfsmenn leikskólanna og því enn að mótast grunnur til samanburðar meðal leikskólanna í Hafnarfirði og eins heilt yfir. Árið 2018 voru 33 leikskólar í 17 sveitarfélögum skráðir í Skólapúlsinn, þar af allir 17 leikskólarnir í Hafnarfirði.

Skýrsla fyrir leikskóla

Grunnskólar Hafnarfjarðar – nemendur og kennarar hafa trú á eigin getu og hæfileikum

Nemendur í 6.-10. bekk eru spurðir um líðan, virkni, sjálfsmynd, skóla- og bekkjaranda og heimavinnu á meðan nemendur í 1.- 5. bekk eru spurðir um ánægju af lestri, ánægju með skólann og líðan í skólanum. Grunnskólar Hafnarfjarðar koma mjög vel út í þáttum sem snúa að nemendunum sjálfum, líðan, virkni og mati þeirra á eigin getu, þrautseigju og sjálfsáliti sem er afar ánægjulegt. Ánægja nemenda í 1.-5. bekk og líðan þeirra skorar hæst í samanburði þátttökuskóla á landsvísu. Vellíðan í skóla er há hjá hafnfirskum (eldri) nemendum, þau hafa góða stjórn á eigin lífi og hafa jákvæða sjálfsmynd. Hafnfirsk börn hreyfa sig mikið og huga vel að hollu mataræði, finnst heimanám mikilvægt og ná góðu sambandi við jafnaldra. Niðurstöður gefa til kynna að ástæða sé til að skoða betur hvernig efla megi samband nemenda við kennara ásamt því að skoða virkni og aga í kennslustundum.

Frá Skarðshlíðarskóla/OBÞ

Í starfsmannakönnun eru teknir fyrir þættir eins og líðan, viðhorf til skólans, starfsumhverfi, mat og endurgjöf. Niðurstöður í starfsmannakönnun eru á meðaltali í 13 þáttum. Kennarar hafa heilt yfir trú á eigin getu og gott samstarf er milli kennara um kennslu. Ánægja er með þá símenntun sem í boði er og vilji til að mennta sig enn meira. Kvartanir undan áreiti og einelti í starfsmannahópi eru fáar hjá bænum og sveitarfélagið vel undir meðaltali í þeim þætti.  Starfsmenn eru heilt yfir ánægðir í sínu starfi (0,4 stigum undir meðaltali) og með stjórnun skólans (0,4 stigum undir meðaltali), starfsandinn góður (0,5 stigum undir meðaltali) og ánægja með starfsumhverfið nokkuð góð (0,4 stigum undir meðaltali. Við túlkun niðurstaðna er viðmiðunarreglan sú að munur upp á 0,5 stig telst ekki mikill munur. Viðhorf starfsmanna til síns skóla telst því nokkuð gott heilt yfir.

Niðurstöður benda til þess að ástæða sé til að skoða þætti eins og gagnsemi starfsmannaviðtala, endurgjöf frá stjórnendum og starfsumhverfi kennara. Hvað varðar starfsumhverfi kennara þá þarf sérstaklega að horfa til þátta eins og stuðnings við kennara vegna nemenda með náms- og hegðunarörðugleika, faglegan stuðning skólastjóra við kennara, valddreifingu við ákvarðanatöku og vinnuaðstæður. Kennarar kalla á sama tíma eftir virkari samvinnu um skólaþróun og umbætur.  Líklegt er að þau verkefni sem starfshópar og faghópar leik- og grunnskóla hafa ráðist í á síðustu vikum og mánuðum séu ekki farin að skila sér beint út í skólastarfið og þar með í kannanir. Vonir standa til þess að það mikla umbótastarf sem snýr að umhverfi, álagi og stuðningi fari að skila sér betur inn á borð allra kennara.

Grunnskólar Hafnarfjarðar eru 8 talsins, nemendur í 6.-10. bekk 1.769 (87,8% svarhlutfall), nemendur í 1.-5. bekk 2.121 (91,2% svarhlutfall) og  starfsmenn 601 (80,1% svarhlutfall). Börn á grunnskólaaldri með lögheimili í bænum voru 4.197 þegar könnun er gerð. 4011 af þeim í grunnskólum Hafnarfjarðar, hinir í öðrum skólum. Árið 2018 voru 115 grunnskólar skráðir í Skólapúlsinn í 43 sveitarfélögum og náði könnun til um 15.000 nemenda á landinu í 6. – 10. bekk og um 5.500 nemenda í 1. – 5. bekk í 31 skóla í 11 sveitarfélögum. Færri skólar eru að framkvæma starfsmannakönnun, sem náði þetta árið til 42 skóla í 20 sveitarfélögum. Þar af 8 skóla í Hafnarfirði. Um er að ræða fimmta árið sem úttekt er gerð fyrir grunnskólana. Kannarnir voru lagðar fyrir nemendur og starfsmenn í ár en ekki meðal foreldra. Kannanir meðal foreldra og starfsmanna eru til skiptis annað hvert ár en nemendakannanir árlega í 6. – 10. bekk en í ár í fyrsta skipti líka meðal 1.-5.bekkjar.

Skýrsla fyrir grunnskóla