Í skugga Sveins er nýr fjölskyldusöngleikur eftir Karl Ágúst Úlfsson byggt á Skugga-Sveini eftir Matthías Jochumsson, einu af elstu, ástsælustu og vinsælustu leikverkum á íslensku. Fjarðarpósturinn kíkti á æfingu í Gaflaraleikhúsinu, þar sem söngleikurinn verður frumsýndur 4. febrúar nk., og hitti þar fyrir stærstan hluta hópsins sem stendur að sýningunni. Þrír einstaklingar leika fimmtán hlutverk og syngja ellefu lög, þau Karl Ágúst Úlfsson, Kristjana Skúladóttir og Eyvindur Karlsson. Karl er höfundur handrits og söngtexta, Eyvindur semur tónlistina og leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.

Kristjana Skúladóttir og Karl Ágúst Úlfsson í tveimur af sínum fjölmörgu hlutverkum. Mynd: aðsend. 

„Þetta er fjölskyldusöngleikur úr þjóðlegum efnivið með mikla breidd af tónlist. Skugga-Sveinn er stórmerkilegt menningarverðmæti, eitt af fyrstu leikritum sem skrifuð voru á íslensku. Við vildum setja sýninguna í nýjan búning og gera hana aðgengilegri fyrir nútímafólk. Með sýningunni erum við eiginlega að endurvekja menningararfinn og færa þeim sem hafa aldrei lesið eða heyrt um Skugga-Svein, með grípandi lögum og textum,“ segir Karl, sem margir muna eftir úr Spaugstofunni, Góða Dátanum Svejk og Umhverfis jörðina á 80 dögum.

Kristjana og Karl Ágúst. Mynd: Olga Björt. 

Fjöhæfur og reynslumikill hópur

Ágústa hefur leikstýrt fjölda vinsælla leikverka, t.a.m. Ævintýrum Múnkhásens hér í Gaflaraleikhúsinu, Línu Langsokk, Umhverfis jörðina á 80 dögum, Töfraflautu Mozarts í og Kvenfólki með Hundi í óskilum. Ágústa og Karl höfðu samband Kristjönu því þeim fannst hún passa vel inn í verkið með sína hæfileika því það krefst víðrar leik- og sönghæfni. Kristjönu leist strax vel á og hafði unnið með Karli í sýningunni Gosa um árið þegar hún lék Álfadísina góðu. Einnig hefur hún m.a. leikið í Carmen, Kabarett, Gretti og Superstar. Leikmynd og búningar eru eftir Guðrúnu Öyahals, grímur og leikgervi gerir Vala Halldórsdóttir, en lýsingu annast Skúli Rúnar Hilmarsson.

Hér sést einnig Skugga-Sveinn sjálfur fyrir aftan, sem Eyvindur Karlsson leikur. Mynd: aðsend. 

Bein sem hljóðfæri og í leikmynd

Hópurinn fór í vinnubúðir í Húsafell í október og þar kom upp sú hugmynd að nota bein í leikmynd og hljóðfæri. „Það var svolítið mikið verið að sjóða kjöt heima, redda beinum og sækja hræ upp í fjöll. Við urðum að finna smám saman út hvaða hljómar komu þegar slegið var á beinin,“ segir Ágústa og hlær. Síðan þá hafi ferlið verið hreint ævintýri. „Við vissum í upphafi hvaða sögu við ætluðum að segja, hafa hana stílfærða og fara ekki hefðbundna leið. Þessi vinnuferð skýrði síðan mikið hvaða leið við ætluðum endanlega að fara,“ segir Karl og bætir við að síðan hafi handrit, persónur og annað aðeins breyst. Teymið er sammála um að ferlið sé búið að vera mjög gefandi og skemmtilegt. „Það eru áskoranir í þessu, t.d. að einn maður leiki 40 manna her. Glíman okkar er að leita lausna við framsetninguna, hálfgerður vefnaður þar sem allt er ómissandi.“

Heimiliserjur kláraðar á æfingum

Sagan gerist að hausti til á Grasafjalli og litirnir í leikmyndinni endurspegla þann tíma, eru sterkir og fallegir jarðarlitir. Frumsamin lög í verkinu eru 11, þar af söngnúmer og auk þess stef og annað. „Þessi sýning mótast algjörlega af heildinni sem að henni stendur, persónu og stíl hvers og eins. Við höfum oftast nær verið sammála með hugmyndir sem koma fram og þær eru allar mikilvægar, hverjar sem enda á frumsýningunni. Hér hafa líka átt sér stað heimiliserjur innan hópsins sem við höfum bara klárað og farið svo glöð heim, “ segir Karl og hlær, en Eyvindur er sonur hans og Ágústa sambýliskona.

Fyrsti alíslenski söngleikurinn í langan tíma

Spurð um markhóp sem sýningin á að ná til segir Ágústa að Gaflaraleikhúsið sé leikhús Hafnfirðinga og veiti t.a.m. skólunum afslátt í febrúar. „Grunnskólanemendur erusérstaklega velkomnir. Foreldrar þeirra, systkini, ömmur og afar eru mjög velkomin líka. Skólarnir í nágrannasveitarfélögum vilja líka koma. Það er langt síðan við vorum með svona stóra fjölskyldusýningu sem er um leið söngleikur. Það gerist heldur ekki oft sem að frumsýndur er alíslenskur söngleikur með frumsömdum glænýjum lögum. Við erum að þessu fyrir áhorfendur og hlökkum til samtals við þá.“

Hér er hægt að kaupa mið á sýninguna. 

 

Forsíðumynd: Kristjana Skúladóttir, Ágústa Skúladóttir, Skúli Rúnar Hilmarsson, Karl Ágúst Úlfsson og Eyvindur Karlsson.