Vitað er um hóp Hafnfirðinga sem tekur þátt í Íslandsmóti í töfrateningum um helgina (9. og 10. júní) í Háskólanum í Reykjavík. 50 keppendur frá 11 löndum hafa skráð sig til leiks og keppt verður í 12 flokkum en mótið er alþjóðlega viðurkennt og undir verndarvæng alþjóðlega töfrateningssambandsins (World Cube Association). Síðasta mót af þessu tagi var haldið í Reykjavík árið 2014.

Hver man ekki eftir töfrateningnum sem sló í gegn um allan heim í upphafi níunda áratugs síðustu aldar. Frá þeim tíma hafa verið seldar meira en 350 milljónir eintaka og enn eru áhugasamir um allan heim á öllum aldri að spreyta sig á upphaflega teningnum (Rubiks Cube 3×3) og ótrúlegri flóru annara sambærilegra teninga af öllum stærðum og gerðum.

Búast má við að bæði Íslandsmet, Evrópumet og jafnvel heimsmet verði sett á þessu móti en mjög öflugir keppendur eru skráðir til leiks. Fjölbreytt dagskrá er báða dagana frá 09:00-17:00 og er m.a. keppt í því að leysa 3×3 kubba blindandi. Mótinu lýkur á sunnudaginn 10. júní klukkan 17:00 með verðlaunaafhendingu. Aðgangur er ókeypis.

Sem upphitun fyrir þetta mót var haldið alþjóðlegt mót í Heimaey, „Heimaey Open 2018“ nú í vikunni þar sem 11 keppendur frá 4 löndum reyndu með sér í hefðbundnum og óvenjulegum greinum eins og að leysa töfrateninginn með fótunum. Þetta fyrsta alþjóðlega kubbamót sem haldið var utan höfuðborgarsvæðisins tókst vonum framar og má búast við að slíkum mótum eigi eftir að fjölga í framtíðinni.

Vinsældir töfrateningsins eru vaxandi hér á landi en íslandsmótið nú um helgina er það lang fjölmennasta sem haldið hefur verið frá upphafi á Íslandi.

Stjórnendur mótsins eru: Rúnar Gauti Gunnarsson, James Molloy, Clément Cherblanc og Danival Heide Sævarsson.

Mynd: aðsend.