Nytjamarkaður ABC barnahjálpar opnaði í apríl í Dalshrauni 13. Þar er tekið á móti öllu mögulegu sem fólk er hætt að nota og gæti komist áfram til ánægðra viðtakenda. ABC barnahjálp hefur þegar rekið nytjamarkað í Víkurhvarfi í Kópavogi í 10 ár og félagið á 30 ára afmæli í ár. Við kíktum við og ræddum við verslunarstjórann Sigurlaugu Guðrúnu Gunnarsdóttur, sem er alsæl með viðtökur Hafnfirðinga.

„Við erum tvö sem störfum hérna en einnig fjöldi sjálfboðaliða. Það er alveg ótrúlegt hvað fólk er jákvætt og opið fyrir því að vera í sjálfboðastarfi. Við erum þó alltaf að leita að fleirum og erum nýbúin að vera með eina hérna sem elskar að grúska í bókum og skipulagði þá deild hjá okkur. Alveg frábær,“ segir Sigurlaug. Hjá Nytjamarkaði ABC barnahjálpar er tekið við fötum, búsáhöldum, leikföngum, bókum, plötum/cd/dvd, húsgögnum, veggmyndum og rafmagnstækjum svo eitthvað sé nefnt. Varningnum er síðan komið smátt og smátt í nýjar hendur gegn vægu verði og rennur allur ágóði markaðarins til starfsemi ABC barnahjálpar sem styður fátæk börn til náms í Afríku og Asíu.

Fermingargjafir og sundföt

Sigurlaug segir hafa gengið vel að undirbúa opnun markaðarins en það fari mikil vinna í að koma svona á legg. „Við erum u.þ.b. hálfnuð. Fólk er mjög duglegt að koma með hluti og við erum strax farin að selja helling. Það kom skemmtilega á óvart hversu vel Hafnfirðingar hafa tekið við sér á stuttum tíma. Hafnfirðingar eru greinilega gjafmilt og gott fólk.“ Úrvalið á markaðnum sé mikið og allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. „Ein kona keypti fermingargjöf hérna áðan! Við seljum líka hjólahjálpa og sundföt eru búin að mokast út, enda týna krakkar þeim oft og þá er hægt að kaupa hér slík á 300 kall,“ segir Gógó, en henni finnst fátt meira gefandi en að hitta nýtt fólk og hlakkar til að taka á móti fleiri bæjarbúum. Hún segir ABC foreldra vera orðna marga og sumir séu með tvö börn á framfæri. „Það er séð er til þess að foreldrar fái þau tengsl við börnin sem þau vilja. Það gerir þetta allt svo vinalegt og fallegt.“

Nytjamarkaðurinn er opinn alla virka daga á milli 12:00 og 18:00. Þá er einnig tekið við varningi.