Haukar eru komnir í undanúrslit Íslandsmótsins í körfubolta eftir hreint út sagt ótrúlegan sex stiga sigur gegn Keflavík í oddaleik liðanna í kvöld. Lokatölur 72-66 og Haukar vinna einvígið þar með 3-2. Haukar mæta KR í undanúrslitum. 
Eins og fram kemur í umfjöllun RÚV héldu Keflvíkingar forystunni lungan úr 1. leikhluta en frábær kafli heimamanna þegar um það bil þrjár mínútur voru eftir snéru leiknum Haukum í hag. Breyttu þeir stöðunni úr 10-14 í 22-16 áður en Keflavík minnkaði muninn undir lok leikhlutans en staðan var 22-18 Haukum í vil þegar flautan gall.

Síðustu sekúndur leiksins voru ótrúlegar en Haukar fengu dæmda á sig tæknivillu og Hörður Axel setti niður eitt vítaskot og Ragnar Örn Bragason setti niður þriggja stiga skot strax í kjölfarið og allt í einu var munurinn eitt stig og sjö sekúndur eftir á klukkunni. Keflavík neyddist til að brjóta strax en Kári Jónsson setti bæði vítaskotin niður. Næsta sókn Keflvíkinga rann út í sandinn og þeir brutu á Paul Anthony Jones III sem setti einnig sín tvö vítaskot niður og kórónaði svo magnaða endurkomu Hauka með þriggja stiga skoti frá miðjum velli í þann mund sem tíminn rann út.

Lokatölur eftir ótrúlegar loka sjö sekúndur því 72-66.

Kári Jónsson var stigahæstur í liði heimamanna með 21 stig en hann tók einnig 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.Þar á eftir kom Paul Anthony Jones III en hann gerði 17 stig og tók 10 fráköst. Hjá Keflavík var Hörður Axel Vilhjálmsson stigahæstur með 16 stig en þar á eftir kom Christian Dion Jones með 15 stig ásamt því að taka 14 fráköst.

Haukar mæta ríkjandi Íslandsmeisturum KR í undanúrslitum Dominos deildar karla.

Mynd af Kára Jónssyni: Karfan.is.