Íslendingar lifa lengur nú en áður, þrátt fyrir aukinn aldur þá hefur heilbrigðum æviárum þó ekki fjölgað að sama skapi.  Samsetning þjóðarinnar er að breytast, eldra fólki er að fjölga meðan því yngra er að fækka. Í ljósi þess að lífárum fólks fjölgar ört er brýnt að heilbrigðum árum fjölgi að sama skapi. Með þessa þróun í huga er mikilvægt að reyna að skilja og greina þá þætti sem efla heilbrigði í stað þess að einblína eingöngu á mein og sjúkdóma. Rannsóknir sýna fram á mikla aukningu langvinnra lífsstílssjúkdóma á Íslandi síðastliðin tuttugu ár.  Þessir sjúkdómar eru fyrst og fremst hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, langvinnir lungnasjúkdómar og sykursýki.  Stoðkerfisvandi, sykursýki, mígreni og þunglyndi eru auk þess nú á meðal 10 meginástæðna örorku á Íslandi. Með því að huga að lýðheilsu í stefnumótun og ákvörðunartöku er hægt að fyrirbyggja þessa þróun.

Hugtakið lýðheilsa er þverfaglegt og hefur breiða skilgreiningu. Samstarf og samvinna í samfélaginu er þverfagleg og leggur áherslu á að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður þjóðar og einstaka hópa innan hennar. Lýðheilsa snertir ekki bara heilbrigðismál heldur líka félags-, umhverfis- og efnahagsmál.

Heilsueflandi samfélagi er ætlað að bæta bæði hið manngerða og félagslega umhverfi íbúa, draga úr ójöfnuði og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með margvíslegu lýðheilsustarfi.  Hafnarfjörður varð heilsueflandi samfélag árið 2015 þegar samstarfssamningur var undirritaður við Embætti landlæknis. Hugmyndafræði heilsueflandi samfélags er að heilsa og líðan íbúa sé í fyrirrúmi í allri stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum, þ.e. allir geirar samfélagsins hafa það hlutverk að skapa íbúum aðstæður sem stuðla að heilsu og vellíðan. Í dag eru heilsueflandi samfélög orðin 15 hér á landi og fer fjölgandi með hverju árinu. Með samstarfssamningnum eru sveitarfélögin að stíga skref í að viðurkenna að lýðheilsa skiptir máli, að sveitarfélagið sé tilbúið til að stuðla að heilsuvænu samfélagi, með ánægða, hrausta, virka og hamingjusama bæjarbúa.

Ég byrjaði að þjálfa fimleika 16 ára og hef verið viðloðin þjálfun, kennslu, forvarnir, heilsueflingu og heilsurækt í einhverri mynd til dagsins í dag, sem sagt …. 30 ár.  Fyrstu árin var íþróttaiðkun og afreksþjálfun mér hugleikin en með árunum hafa áherslurnar breyst og í dag brenn ég fyrir almennri lýðheilsuhugsun, með velferð og hamingju í fyrirrúmi.  Ég hef bæði mikla reynslu og þekkingu á heilsueflingu og lýðheilsumálum og get státað mig af því að hafa haft bein áhrif á heilsu einstaklinga allt frá 3 mánaða til 103 ára.

 

Hulda Sólveig Jóhannsdóttir

Íþrótta- og heilsufræðingur og skipar 5. sæti í Bæjarlistanum í Hafnarfirði