Fríkirkjan í Hafnarfirði var stofnuð 1913 og er í friðlýstri afar fallegri byggingu á áberandi stað við Austurgötu. Þar fer fram nútímalegt og metnaðarfullt starf fyrir alla aldurshópa og fjölskylduleg samheldni einkennir starfsfólkið, söfnuðinn og andrúmsloftið. Fjarðarpósturinn kynnti sér starfið og ræddi við Einar Sveinbjörnsson, formann safnaðarstjórnar og hringjara og hjónin Ernu Blöndal, söngkonu og umsjónarkonu með barnastarfi og Örn Arnarson, tónlistarstjóra kirkjunnar. 

Örn Arnarson, Einar Sveinbjörnsson og Erna Blöndal.

Í sögu Fríkirkjunnar segir að hún er fyrsta kirkjan sem reist var í Hafnarfirði á síðari tímum en jafnframt síðasta tvílofta timburkirkjan á landinu. Frá henni var messu fyrst útvarpað til Íslendinga, árið 1926, en um var að ræða einkaframtak og sérleyfi, því ríkið kom ekki að útvarpsrekstri fyrr en fjórum árum síðar. Safnaðarstarfið í dag einkennist enn af þori til að fara eigin leiðir og ótroðnar slóðir. Kirkjukórinn er t.d. stór hluti af starfinu og mikil breyting varð á tónlistarvali eftir að Örn kom inn í starfið árið 2005. „Við höfum reynt að nota tónamál sem fólkið skilur og tengir við. Tónlistin í athöfnum er aðalatriði hjá okkur og það ríkir ánægja meðal kórfélaga,“ segir Örn og bætir við að prestarnir, séra Einar Eyjólfsson og séra Sigríður Kristín Helgadóttir, halda einnig athygli safnaðarins. „Fólk sem kemur og ætlar að sitja messurnar af sér upplifir bara allt annað. Hér er ekki töluð himneska, heldur mannamál, og vel mætt í messurnar.“

Eldri krílakórinn á æfingu.

Örn með gítarinn.

Erna er afar skapandi og skemmtilegur leiðbeinandi.

Samtöl á jafnréttisgrundvelli

Viðmælendurnir þrír eru sammála um að þau taki eftir að stórfjölskyldur komi í messur og gerir sér jafnvel dagamun með því að hittast á undan eða á eftir. „Ég hef það líka stundum á tilfinningunni að ég sé hér sem hluti af fjölskyldu. Kikkið við að starfa hérna er samfellan og samhugurinn um að við erum hópur og að þetta er okkar kirkja. Hér ríkir andi sem fæst ekki á annan hátt nema þegar fólk sameinast um að skapa eitthvað,“ segir Örn. „Sigga og Einar senda mann alltaf með eitthvað úr messunum inn í næstu viku til að hugsa um. Þau er miskunnarlaus með umræðuefni, s.s. það sem er sammannlegt og eiga frekar samtal við viðstadda á jafnréttisgrundvelli en að predika. Ég verð oft mjög snortin og við finnum fyrir mikilli samkennd og þakklæti frá þeim sem koma,“ segir Erna.

Frá æfingu yngri krílakórsins.

Þátttakendur eru alveg heillaðir.

Stækkandi söfnuður og vinsæl kirkja

Einar segir að í starfinu hafi fólk einnig verið óhrætt við að gera tilraunir með t.d. óhefðbundinni tónlist og takti það hafi gefist vel. „Við könnumst þó alltaf við arfinn og syngjum gamla sálma og varðveitum hefðina og helgisiðina. Við eigum okkur sjálf, erum lútherskur söfnuður, en höfum lagt áherslu á að tala inn í samtímann. Það hefur tekist ágætlega. Söfnuðurinn stækkar og kirkjan er vinsæl, s.s. í kvöldathöfnum og sunnudagskólanum. Þar er fjölbreytt dagskrá og mikið stuð en samt með alvarlegum undirtóni og sterkum skilaboðum.“ Þess má geta að Einar er í hringjarafélagi kirkjunnar, en kirkjan er sú eina suðvestan lands sem hringir ekki vélrænt.

Myndir frá krílasálmum.

Ekki amalegt að fá að sulla í skírnarfontinum. „Leyfið börnunum að koma til mín…“

Foreldrar eru ekki síður heillaðir en börnin af þessari samverustund.

Persónuleg fræðsla og samvera

Í fermingarstarfinu er kappkostað að hafa samveru og fræðslu persónulegar. „Börnin vilja ræða svo margt á mannamáli, s.s. klám, vináttu, fíkniefni og allt fram eftir götunum. Svo erum við með sérstaka sorgarumfjöllun og þá finna margir fyrir þörf til að gráta. Það er líka nauðsynlegt að ræða sorgina og þau eru óhrædd við það,“ segir Erna, en hún hefur m.a. umsjón með barnastarfi kirkjunnar, sem er mjög vinsælt og mikill metnaður og virðing lög í það. Um er að ræða krílakóra, barnakór, krílasálma og foreldramorgna. Foreldrar sem koma í Krílasálma sögðu í samtali við Fjarðarpóstinn að þeir hefðu orðið fyrir fallegri upplifun sem þeir hafi einfaldlega ekki kynnst áður. „Hörður Guðmundsson, kirkjuvörður, oft kallaður afi sóknarbarna kirkjunnar, náði að upplifa Krílasálma og hann kom alltaf og flaggaði og naut stundarinnar, sem var í miklu uppáhaldi hjá honum,“ bætir Erna við og segist þakklát kvenfélagi kirkjunnar fyrir að syðja allt barnastarfið, ásamt svo mörgu öðru. „Það er líka virkilega ánægjulegt að finna áhuga yngri kynslóða á að taka smám saman við kvenfélaginu og bræðafélaginu. Það segir ýmislegt um starfið og andann.“

Örn Arnarson, tónlistarstjóri Fríkirkjunnar í Hafnarfirði. Mynd/ÓMS

Vilja auka samstarf við aðrar kirkjur

Fríkirkjan hefur á undanförnum árum orðið vinsælli sem útfararkirkja fyrir minni athafnir, en hún tekur 300 manns í sæti. Örn segir hana rúma lúmskt marga en þar sé aldrei tómlegt. „Við notum safnaðarheimilið mikið þótt við getum því miður ekki boðið upp á erfisdrykkjur þar vegna aðgengis. Bræðrafélagið sér um að mála, þrífa og halda byggingunum við og settu nýverið snjóhengjuvarnir á þak kirkjunnar svo að snjórinn hrynji ekki ofan á líkbíla eða fólk.“ Svo hafi aukist að skólar og leikskólar komi í aðventuheimsóknir og kynningu á kirkjunni. Þá er þeim sögð sagan og frædd um menninguna.

Frá tónlistargöngu á vegum Hafnarfjarðarbæjar undir lok september. Mynd/OBÞ

„Þau velja hvaða lög þau vilja syngja og þá er Snjókorn falla t.d. vinsælt. Þessar stundir eru dásamlegar og margt skemmtilegt sem börnin segja í einlægni sinni.“ Að auki er staðið fyrir helgistundum fyrir eldri borgara á Sólvangi og sú þjónusta sé ætíð vel þökkuð. „Fólk réttir alveg úr sér þegar það fær að fara með gamlar bænir sem það þekkir og syngja sálma sem það kann,“ segir Örn. Erna bætir við að lokum: „Þótt við förum eigin leiðir þá viljum við að sjálfsögðu hjálpast að með öðrum kirkjum, bera saman bækur til að sjá hvað aðrir gera vel og laga það að okkar starfi. Tilgangurinn, kærleikurinn, er alltaf sá sami.“

Myndir/OBÞ