Listamaðurinn Hermann Ingi Hermannsson, sem margir Hafnfirðingar kannast við eftir áralanga þjónustu við hirð Jóhannesar fjörugoða, opna sölusýningu á tuttugu vatnslitamyndum undir nafninu “Famous vinyl albums and songs versus vitinn” í Bæjarbíói í Hafnarfirði í tengslum við hátíðina Hjarta Hafnarfjarðar.

Abby Road – The Beatles.

Hermann Ingi bjó um árabil við Hverfisgötuna í Hafnarfirði en einmitt þar í bakgarðinum stóð og stendur enn hinn eini sanni Hafnarfjarðarviti sem er tákn bæjarins. Hermann tók fljótt miklu ástfóstri við vitann og hefur teiknað hann og málað í öllum mögulegum útgáfum, jafnvel gætt hann lífi og skrifað um hann sögur. Það hlaut því að koma að því að vitinn læddist inn í tónlistarheim Hermanns Inga, en Hermann á langan feril að baki í tónlistarbransanum og má þar helst nefna hljómsveitirnar Loga, Papa og Hrafna.

Led Zeppelines first.

Verður sjálfur á staðnum

Hermann hefur unnið myndir upp úr þekktum vínyl-albúmum, plötum sem hafa heillað hann og mótað gegnum tíðina og endurgert þær með vitann í forgrunni eins og sést á meðfylgjandi myndum sem eru aðeins brot af sýningunni. Hún opnaði formlega 29. ágúst kl. 17 og verður uppi út september. Hermann verður sjálfur á staðnum á meðan Hjarta Hafnarfjarðar stendur yfir.

Stikcy fingers – Rolling Stones.