Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að halda áfram að fjölga félagslegum íbúðum en 20 íbúðir hafa verið keyptar á síðustu tveimur árum eftir langt tímabil þar sem engin fjárfesting var í fjölgun íbúða vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Stóraukið fjármagn til að stytta biðtíma eftir íbúð

Áfram verður haldið á þessari braut og á þessu ári er gert ráð fyrir 500 miljónum til fjárfestingar í kerfinu.  Lögð verður  áhersla á að kaupa minni íbúðir og er það í samræmi við greiningu á þörfum umsækjenda. Mikilvægt er að sá hópur sem uppfyllir skilyrði fyrir þessu  búsetuúrræði fái aðgang að öruggu húsnæði og  að punktakerfið sem stuðst er við verði endurbætt þannig að það nái til fleiri hópa og má þar nefna foreldra með sameiginlegt forræði yfir börnum sínum.  Einnig þarf að taka sérstaklega tillit til aðstæðna fatlaðra og  eldri borgara. Um  120 fjölskyldur voru á biðlista eftir félagslegri íbúð í janúar 2018 en stefnt er að því að stytta biðtíma eftir íbúð eins og kostur er.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur beitt sér fyrir fjölgun íbúða í félagslega kerfinu á kjörtímabilinu sem er að ljúka og nú höldum við áfram fyrir Hafnarfjörð.

Helga Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi.

Skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðismanna.