Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði hefur unnið að fjölmörgum málum til að bæta hag eldri Hafnfirðinga og mikilvægt er sjálfstæðismenn fái stuðning í bæjarstjórn til þess að halda þar áfram.

Eitt nýlegasta verkefnið er heilsuefling eldri aldurshópa bæjarins, sem hefur mælst afar vel fyrir og getur bætt lífsgæði til muna eins og rannsóknir hafa sýnt. Séð hefur verið til þess að hægt sé að nýta tómstundastyrk bæjarins við greiðslu þátttökugjaldsins.

Afsláttur af fasteignaskatti til eldri borgara var stóraukinn fyrir þetta ár. Áður nutu eingöngu einstaklingar með árstekjur undir 2.995 þús. kr. fulls afsláttar, en núna nær fullur afslátur einnig til þeirra sem hafa allt að 5.013 þús. kr. í árstekjur. Sambærileg aukning hefur orðið á afsláttarkjörum hjóna og sambúðarfólks og nú stendur Hafnarfjörður einna fremstur á landinu í þessum efnum.

Mikilvægt er að koma til móts við óskir um smærri íbúðir og þar er m.a. horft til uppbyggingar í Hamranesi. Þá eru til skoðunar spennandi kostir við að byggðar verði íbúðir með þjónustukjarna á Völlum.

Framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Sólvangi hafa vart farið framhjá neinum, en það verður bráðlega tekið í notkun. Auk nýja heimilisins er unnið að því að eldra húsið verði nýtt áfram með nýbyggingunni og þannig fáist fleiri rými en annars hefðu orðið og aðstaða fyrir sameiginlega þjónustu og starfsemi.

Hér er aðeins rakin örfá dæmi um hvar við höfum látið til okkar taka í málefnum eldri Hafnfirðinga og við ætlum að halda áfram á þeirri braut.

Kristinn Andersen

Höfundur er verkfræðingur og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði