Í haust hefur borið á því að hópur ungs fólks hafi verið að safnast saman niður í miðbæ til að hanga í og við Fjörð. Þetta hefur verið að gerast eftir að skóla lýkur, um helgar og fram á kvöld.  Þessi hópasöfnun getur haft slæmar afleiðingar.

Fjörður er verslunarmiðstöð  í hjarta Hafnarfjarðar, miðstöð samgangna og hin besta verslunarmiðstöð. Þar er hægt að kíkja á kaffihús og spjalla og nota ýmiskonar þjónustu. Neikvæðar hliðar af svona miðlægum stað í miðbæ okkar geta komið upp þegar unglingar hópast þar saman til að hanga.

Við Fjörð hefur verið viðvarandi hópasöfnun unglinga, mest á framhaldsskólaaldri. Þar er margt í gangi sem við viljum ekki að börnin okkar tengist. Þar eru allskonar eldri aðilar í samskiptum við börnin og vitað er að fíkniefnasala á sér stað þar og unglingar hafa verið að reykja marijúana við Fjörð. Þetta ástand getur versnað og smitast og dregið fleiri börn til að taka þátt.

Árangursríkar leiðir í vímuvörnum eru að foreldrar viti hvað börnin sín eru að gera, með hverjum þau eru, virði útivistarreglur og taki virkan þátt í skipulögðu íþrótta- eða æskulýðsstarfi. Það fer ekkert skipulagt félagsstarf fram í Firði, þar eru ekki þjálfarar eða aðrar jákvæðar fyrirmyndir að vinna með börnunum að spennandi verkefnum  og engin veit hvort hægt sé að grípa inn í ef eitthvað óæskilegt gerist.

Þátttaka í foreldrarölti er ein af leiðunum til að tryggja öryggi barna okkar, stunda nágrannavörslu og viðhalda góðu ástandi í hverfum bæjarins. Við hvetjum foreldraröltin til að kíkja niður í miðbæ og sjá hvernig staðan er.

Það er von mín að við lestur á þessari stuttu orðsendingu geri foreldrar sér grein fyrir ástandinu og standi með okkur í að tryggja að börnin stundi heilbrigt líferni í öruggu umhverfi.

 

Geir Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi