Bogfimifélagið Hrói Höttur er nýjasta íþróttafélagið í Hafnarfirði og mun bjóða upp á opið hús og fríar kynningar á íþróttinni í íþróttahúsi Hraunvallaskóla í nóvembermánuði. Aðalþjálfari er Sveinn Stefánsson og Fjarðarpósturinn kíkti á æfingu og náði smá spjalli.

Sveinn sýnir nemanda réttu handbrögðin.

Íþróttafélagið Hrói höttur var stofnað með það markmið í huga að efla útbreiðslu bogfimi á Íslandi með kynningum og skipulögðum námskeiðum. „Sér í lagi fyrir Hafnfirðinga. Félagið er með allan þann bogabúnað sem til þarf til að læra grunnatriði og geta lært hvernig á að bera sig að. Það þarf bara að mæta með innistrigaskó og góða skapið,“ segir Sveinn, fullur tilhlökkunar, en hann hefur lokið námi hjá W.A , Wourld Archery alþjóða bogfimisambandinu og hefur verið að kenna í Reykjavík frá því að hann útskrifaðist. Einnig kláraði hann þjálffræði frá ÍSÍ núna í sumar og er með innanlandsdómararéttindi í bogfimi. Fljótlega eftir áramót mun félagið bæta við sig þjálfara, Ingólfi Rafni Jónssyni, sem einnig hefur lokið námi hjá W.A og er með sömu réttindi og Sveinn.

Allur aldur æfir saman

Félagið verður með aðstöðu í íþróttahúsi Hraunvallaskóla og í nóvember verður opið hús og frítt fyrir alla 14 ára og eldri sem vilja prófa. „Fólk sem æfir bogfimi er í einhverjum tilfellum alveg um og yfir 70 ára,“ segir Sveinn. Skipulagðar æfingar hefjast 3. desember og mun fólk á öllum aldri (14 ára og eldri) æfa saman. 14 – 18 ára frá niðurgreitt með tilkomu frístundastyrkjar frá Hafnarfjarðarbæ. Æft verður tvisvar í viku, á mánudögum kl. 19 – 20:30 og fimmtudögum á sama tíma. Aðeins átta nemar komast að á hverju námskeiði, sem verður um tveir og hálfur mánuður í senn.

Kynningarnar í nóvember verða á mánudögum og fimmtudögum frá kl 19 – 21 og miðvikidögum frá kl. 18 – 20. Hægt er að skoða Facebook síðu félagsins sem heitir Bogfimifélagið Hrói Höttur og einnig veitir Sveinn nánari upplýsingar í síma 896-5131.

Myndir OBÞ