Við nýtingu jarðvarma og orkuflutning ber að gæta ýtrustu varúðar. Sjálfbærni nýtingarinnar skal vera tryggð og sjónræn áhrif í lágmarki. Annað er í raun gagnstætt hugmyndafræði fólkvangs sem svæði til útivistar og almenningsnota og rímar tæpast við jarðminjagarð.

Með tilkomu jarðvarmavirkjana fylgja sjónræn áhrif, bútun (e. fragmentation), sem virka neikvætt á upplifun fjölda fólks. Hugtakið nær t.d. yfir það þegar heildstætt svæði er rofið í smærri einingar af mannvirkjum s.s. vegum. Þótt töluvert sé í heildina eftir af upprunalega svæðinu verða jaðaráhrif áberandi þar sem hver hluti verður n.k. eyja, slitin úr beinum tengslum við næstu “eyju”.

Bútunin er afleiðing núverandi orkuvinnslu og orkuflutnings, en einnig rannsóknaborna þar sem lagðir eru nýjir vegslóðar og borteigar settir niður. Virkjanaframkvæmdir auka síðan á þessi áhrif með mannvirkjum, gufupípum og raflínum.

Á Reykjanesi má finna Reykjanesfólkvang og  Jarðminjagarð (Reykjanes geopark). Bæði fyrirbærin tengjast upplifun sterkum böndum þar sem njóta má víðerna, ganga milli heimsálfa og baða sig í affallsvatni jarðvarmavirkjunar. Fyrir marga er orkan sem sótt er í iður jarðar, framleiðir raforku og hitar upp híbýli með sjálfbærum hætti, einnig uppspretta sterkrar upplifunar.

Á móti spillir fyrir upplifuninni ef mannvirki verða of áberandi. Flestir eru jú einmitt komnir til að njóta náttúru en ekki mannvirkja. Upplifunin yrði svo væntanlega heldur súr ef í ljós kæmi að orkunnar væri ekki aflað með sjálfbærum hætti, heldur þyrfti sífellt að tappa meira af svæðum eða að fara inn á ný, til að standa undir afköstum. Að í stað nýtingar endurnýjanlegrar orku færi í raun fram námuvinnsla.

 

Haraldur R. Ingvason

Skipar 5. sæti á lista Pírata í Hafnarfirði