Eldri Hafnfirðingar eru virkir samfélagsþegnar sem gefa mikið til samfélagins og hafa rutt leiðina fyrir yngri bæjarbúa á fjölbreyttann hátt og af mikilli elju. Síðastliðin 4 ár hefur Hafnfirðingum sem eru 67 ára eða eldri fjölgað og skipa þeir um 10% allra bæjarbúa. Það er mikilvægt að líta á öldrun þjóðarinnar sem tækifæri til framþróunar og hefur Hafnarfjarðarbær góða burði og sterka innviði til að efla framþróun í málum eldri bæjarbúa.

Líkt og á öðrum aldursskeiðum lífsins er ekki síður mikilvægt að lifa lífinu með reisn og njóta hvers dags í nálægð við vini og ættingja.

Eldri borgarar eru ekki einsleitur hópur og að því þarf að huga, áhugamál eru mismunandi sem og langanir og skoðanir. Því er mikilvægt að þjónusta sem í boði er sé einstaklingsmiðuð, aðgengileg og styðji einstaklinga og fjölskyldur á viðeigandi hátt á og á þeirra forsendum.  Einstaklingsmiðuð þjónusta, heilsuefling og gott aðgengi að félagsstörfum sem og annarri þjónustu, hefur sýnt að auki bæði heilsu og lífsgæði. Því er mikilvægt að stuðla að heilbrigði og virkni eldri borgara sem og að styðja og hlúa að þeim sem misst hafa heilsuna eða færni til daglegra athafna. Berum virðingu fyrir þeirri reynslu og þekkingu sem eldra fólk býr að og lærum af þeim. Stöndum saman við að efla aðgengi að fjölbreyttri þjónustu fyrir eldri borgara því þeirra lóð á vogarskálarnar gerir bæjarsamfélagið sterkara.

Við erum sterkari saman.

Magna Björk Ólafsdóttir bráðahjúkrunarfræðingur skipar  6. sæti á lista Framsóknar og óháðra.