Guðmundur Ingi Markússon greinarhöfundur.

Þann 31.10. sl. nam meirihluti bæjarstjórnar skipulagslýsingu Flensborgarhafnar frá 2016 úr gildi. Skipulagslýsingin var útkoma tveggja ára samráðsverkefnis um svæðið með verkefnisstjórn, íbúafundum, vinnustofum, menningargöngu, bloggsíðu, o.fl.

Eins og ég benti á í grein í Fréttablaðinu 7.11. sl., gerist þetta einmitt þegar íbúar andmæla fyrirhuguðum á framkvæmdum á Fornubúðum og vísa máli sínu til stuðning í niðurstöður skipulagslýsingarinnar, m.a.:

  • Lágreistar byggingar sem falla vel að aðliggjandi byggð

Með því að afnema skipulagslýsinguna losnar meirihlutinn við að taka tillit til þessa.

Hvað er lágreist byggð?

Bæjarfulltrúinn Ingi Tómasson (D) svaraði grein minni samdægurs á Vísi.is. Þar gerir hann lítið úr þessu og spyr:

„þá mætti Guðmundur t.d. segja okkur hvað sé lágreist byggð? Hvað er aðliggjandi byggð? Eins og áður sagði þá var skipulagssvæðið stækkað verulega, nú nær það að Stapagötu, þar er aðliggjandi byggð klárlega Skipalónið með sínar 7 hæðir séð frá Hvaleyrarbraut, við Óseyrarbrautina má segja að aðliggjandi byggð sé einnig Skipalónið, einnig má nefna Cuxhavengötu 1, 5 hæðir og byggingu Ísfells svo eitthvað sé nefnt. Við Suðurbakka má horfa til Norðurbakkans á sama hátt og greinarhöfundur horfir til Suðurgötu.“

Þetta eru hártoganir. Merking orða felst í tilgangi þess sem mælir – hvað viðkomandi á við. Ef ég segi að Björgvin Halldórsson sé söngfugl á ég ekki við að hann sé fiðraður, heldur að hann sé góður söngvari.

Finnst einhverjum líklegt, að þeir bæjarbúar sem óskuðu eftir lágreistum byggingum við höfnina í samráðsferlinu hafi kannski átt við 7 hæða blokkir? Svari hver fyrir sig.

Þröngsýni?

Ingi gefur í skyn að ég blandi skipulagi við Fornubúðir saman við umræðu um skipulagslýsinguna, eins og þetta tvennt sé ótengt. Í framhaldinu sakar mig um þröngsýni:

“í janúar 2015 var skipulagssvæðið bundið við Flensborgarkvosina. Á síðari stigum var svæðið stækkað út verulega.”

Það sem hann á við er að lóðin Fornubúðir hafi ekki verið inni á svæðinu í byrjun samráðsferlisins og þess vegna eigi “lágreistar byggingar” ekki við. Í þessu sambandi má nefna að á bloggsíðu samráðsverkefnisins er stækkuð útgáfa skipulagssvæðisins sýnd þegar 23. maí 2015, í ferlinu miðju.

En þetta eru aukaatrið. Fornubúðir eru inni á svæðinu í Skipulagslýsingunni – sem var niðurstaða ferlisins. Sé það þröngsýni að halda sig við það sem var samþykkt og prentað verður bara svo að vera.

Tylliástæður

Hvers vegna var nauðsynlegt að nema Skipulagslýsinguna úr gildi? Samkvæmt meirihlutanum stangast hún á við keppnislýsingu um opna hugmyndasamkeppni um framtíð svæðisins. Tvær ástæður er nefndar sérstaklega, og nefnir Ingi aðra þeirra í grein sinni:

„í keppnislýsingunni er opnað á íbúðarbyggð á skipulagssvæðinu. Í skipulagslýsingunni er ekki gert ráð fyrir íbúðabyggð eins og greinarhöfundi er fullkunnugt um.“

Þetta er augljós tylliástæða þegar betur er að gáð. Orðalag um íbúabyggð er ekki sérlega afgerandi, og í báðum skjölum er vísað til gildandi aðalskipulags:

  • Í keppnislýsingunni stendur: „Ekki er gert ráð fyrir íbúðum á skipulagssvæðinu í gildandi aðalskipulagi. Ef hugmyndir um sértæka íbúðarkosti sem henta svæðinu koma fram, verður ekki tekið neikvætt í slíkar tillögur“ (s. 3).
  • Í skipulagslýsingunni segir: „Ekki verði gert ráð fyrir íbúðum á svæðinu á meðan frekari uppbygging atvinnusvæðis fyrir höfnina er í bið í aðalskipulagi“ (s. 56).

Takið eftir því að skipulagslýsingin útilokar ekki íbúabyggð, gerir bara ekki ráð fyrir henni á meðan gildandi aðalskipulag segir annað. Að það hafi verið nauðsynlegt að afnema skipulagslýsinguna vegna þessa er ekki trúverðugt.

Ingi nefnir ekki hina meginástæðuna sem mikið var gert úr á bæjarstjórnarfundinum þegar skipulagslýsingin var afnumin (trúlega vegna þess að hún býður ekki upp á hártoganir) – þ.e. að skipulagssvæðið sé öðruvísi í keppnislýsingunni. Staðreyndin er sú, að svæðið er nákvæmlega eins í báðum skjölum (sjá mynd á s. 5 í keppnislýsingunni og s. 7 í skipulagslýsingunni).

Eftir stendur sú staðreynd, að í keppnislýsingunni er ekki talað um „lágreistar byggingar“ heldu aðeins um „hæð og umfang“ (s. 3) – þannig losnar meirihlutinn við þetta óþægilega atriði (lágreistar byggingar). Ætlunin er því að slá vopn úr höndum þeirra bæjarbúa sem hafa andmælt áformunum nú í haust.

Þetta verður enn augljósara þegar tímasetningin er skoðuð. Keppnislýsingin var samþykkt í janúar sl. og samkeppnin fór fram í vor. Hafi verið brýnt að afnema skipulagslýsinguna vegna keppnislýsingarinnar, hvers vegna var það ekki gert í byrjun árs, eða á vormánuðum? Merkileg tilviljun að það gerist 10 mánuðum síðar, einmitt þegar íbúar andmæla með vísun til skipulagslýsingarinnar.

Breiðfylking Hafnarstjórnar, skipulagsráðs og bæjarstjórnar

Ingi lætur að því liggja að breiður hópur fólks hafi komið lýðræðislega að ákvörðuninni um að afnema skipulagslýsinguna:

„fullyrt er að meirihluti bæjarstjórnar og þá flestir fulltrúar í skipulags- og byggingarráði og ekki síður hafnarstjórn hafi svikið íbúalýðræðið með því að fella úr gildi skipulagslýsingu Flensborgarhafnar frá 2016.“

Ingi sleppir (líklega þar sem það hentar málstaðnum) að geta þess að sömu lykilmenn sitja í þessum þremur ráðum: Sjálfur er Ingi formaður skipulagsráðs og Ágúst Bjarni Garðarsson (B) varaformaður; Ágúst situr einnig í hafnarstjórn og báðir sitja þeir fyrir meirihlutann í bæjarstjórn.

Ef fulltrúar meirihlutans mega ekki vamm sitt vita hefðu þeir mátt virða skipulagslýsinguna – niðurstöðu tveggja ára samtals við bæjarbúa. Það hefði verið lýðræðislegt.

Yfirgangsstjórnsýsla

Í lok greinar sinnar vænir Ingi andmælendur um að vera á móti Hafrannsóknastofnun – að mótmælin snúist alls ekki um hæð stórhýsanna við Flensborgarhöfn, heldur um komu Hafró til bæjarins. Í þessu sambandi bendir hann á að skipulagið á Fornubúðum hafi ekki fallið á hæðinni:

„Sama er hvort starfsemi Hafró kæmi til með að vera á einni hæð eða fimm, niðurstaðan hefði verið sú sama.“

Ingi sleppir að minnast á, að ástæða þess að skipulagið féll var sú að auglýst deiliskipulag var í ósamræmi við aðalskipulag bæjarins. Kærendur gerðu því bænum þann greiða að benda á þetta misræmi, sem bærinn hefði auðvitað átt að gera sér grein fyrir.

Ingi sleppir einnig að geta þess, að þetta formlega atriði var aðeins eitt af fjölmörgum þáttum kærunnar – önnur mikilvæg atriði hennar lutu einmitt að hæð, skertu útsýni og byggingarmagni.

Málið er, að ef skipulagslýsingin Flensborgarhafnar frá 2016 hefði verið virt og húsnæði Hafró væri á einni eða tveimur hæðum, hefði skipulagið að líkindum aldrei verið kært. Ef ekki hefði verið fyrir þessa yfirgangsstjórnsýslu væru byggingarframkvæmdir í fullum gangi og allir sáttir.

P.S. Ég minni svo Inga á, í ljósi þess hvernig hann nálgast mótmælendur, að við erum ekki pólitískir andstæðingur í bæjarstjórn – við erum almennir bæjarbúar. Fulltrúar meirihlutans mættu hlusta, sýna skilning, og jafnvel bjóða til fundar og ræða málin. Þið eruð fulltrúar allra bæjarbúa, líka þeirra sem andmæla.

Nýr andmælafrestur er 4. desember. Kynnið ykkur málið á: www.sudurbakki.is