Í grunnstefnu Pírata eru borgararéttindi skilgreind sem lögbundin réttindi sem þarf til að taka
þátt í lýðræðislegu samfélagi. Fyrir fólk af erlendum uppruna getur þetta hins vegar verið
snúið mál. Til að innflytjendur einangrist ekki og verði fullgildir þátttakendur í samfélaginu
þurfa þeir að geta nálgast upplýsingar um réttindi sín og skyldur á tungumáli sem þeir skilja.
Þeir þurfa að hafa aðgang að upplýsingum um þjónustu sveitafélagsins,um tómstundir fyrir
börn, félagsleg úrræði og hvert megi leita eftir aðstoð.

Píratar vilja að boðið sé uppá öflugt nám í íslensku og samfélagsfærni án íþyngjandi
kostnaðarþátttöku og kynnt skal sérstaklega hvaða styrkir eru í boði. Tryggja verður að allir
hafi aðgang að viðeigandi túlkaþjónustu hvort sem fólk á í samskiptum við bæjaryfirvöld eða
leik- og grunnskóla. Eins verða upplýsingar frá bænum að vera á eins mörgum tungumálum
og hægt er, þar með talið heimasíða Hafnarfjarðar.

Stuðningur við móðurmál barna er lykilinn að farsæld þeirra í skóla og leik. Leggja þarf
áherslu á virkt tvítyngi í öllu skóla- og frístundastarfi og taka þarf tillit til þess í námsskrám.
Brottfall innflytjenda úr framhaldsskólum er alvarlegt vandamál, sem m.a. stafar af
tungumálaörðugleikum. Vinna verður markvisst að því að minnka það brotfall og sú vinna
byrjar í leik og grunnskóla.

Píratar í Hafnarfirði vilja að bæjaryfirvöld vinni gegn félagslegum undirboðum með því að
tryggja að verktakar sem vinna fyrir bæinn fari eftir lögum og borgi eftir kjarasamningum.

Kári Valur Sigurðsson skipar 2.sæti lista Pírata í Hafnarfirði