Hreint vatn eru lífsgæði sem við tökum sem gefnum.  Kalda vatnið úr Kaldá er sjálfrennandi ómeðhöndlað vatn sem kemur í kranann til okkar án þess að við séum svo mikið að leiða hugann að því, svo sjálfsagt er það enda hefur uppsprettan þjónað okkur í næstum 100 ár.   Vatnsbólin í Kaldárbotnum sækja vatn í Kaldárstraum sem síðan tengist Vatnsendakrikum sem er sameign sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

15.000 tonn af gæðavatni á sólarhring til hafnfirðinga!

Mælingar á gæðum neysluvatns eru framkvæmdar af Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis í samræmi við ákvæði reglugerðar um neysluvatn nr. 536/2001. Árlega eru gerðar ýtarlegar efnamælingar og mánaðarlega eru tekin gerlasýni.  Öll mæligildi hafa verið innar viðmiðunarmarka og í samræmi við fyllstu gæðakröfur.  Árið 2017 notuðu hafnfirðingar um 15.000 tonn af vatni á sólarhring að meðaltali sem er undir þolmörkum vatnsbólsins okkar en engu að síður er nauðsynlegt að skoða með hvaða hætti við getum minnkað sóun í kerfinu og einnig er mikilvægt að halda áfram með rannsóknarvinnu á möguleikum sem kannaðir hafa verið þess efnis að Fagridalur í Lönguhlíðum verði skilgreint sem vatnsverndarsvæði og geti þannig verið vara- eða framtíðarvatnsból fyrir Hafnarfjörð og mögulega nágrannasveitarfélög.

Vatn er sameiginleg auðlind okkar allra sem þarf að hafa forgang í skipulagsmálum.

Nýtt svæðisskipulag vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu tók gildi árið 2015 með samþykkt á nýju svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið 2015-2040. 

Skipulagið samanstendur af afmörkun verndarsvæða og samþykkt nr. 636/1997 um verndarsvæði vatnsbóla á höfuðborgarsvæðinu en ýmsar breytingar hafa orðið á lagaumhverfi og þróun landnýtingar í nágrenni verndarsvæða sem gefa tilefni til endurskoðunar. Eitt af meginmarkmiðum svæðisskipulagsins sbr. bls 60 er:

„Hreint loft, ómengað drykkjarvatn, nálægð við útivistarsvæði og

náttúrulegt umhverfi eru undirstaða þeirra lífsgæða sem felast

í að búa á höfuðborgarsvæðinu og marka sérstöðu svæðisins

umfram önnur borgarsvæði. Mikilvægt er að vernda óskert

náttúrusvæði og tryggja að aukin ásókn skerði ekki verndargildi“

Svæðisskipulag vatnsverndar ásamt samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla eru þannig hluti af svæðisskipulagi höfuðborgarssvæðisins en áður var unnið útfrá sérstöku svæðisskipulagi vatnsverndar.  Það er því enn mikilvægara en áður að virkja samráð milli hagsmunaaðila um umgengni og nýtingu á þessari mikilvægu sameiginlegu auðlind okkar sem vatnið er.  Þar þarf að huga að heildarnýtingu á sem hagkvæmastan hátt, sporna við sóun, framkvæma umhverfismat og gæta jafnræðis milli svæða.

Helga Ingólfsdóttir

Bæjarfulltrúi og formaður Umhverfis- og framkvæmdaráðs