Sannkallað HM fár ríður nú yfir landið þegar aðeins nokkrir dagar eru í að heimsmeistaramótið í knattspyrnu hefst í Rússlandi þar sem  íslenska karlalandsliðið er á meðal þátttökuþjóða í fyrsta sinn. Fyrsti leikur strákana okkar verður gegn Argentínu laugardaginn 16. júní og má fastlega búast við að landsmenn verði límdir fyrir framan sjónvarpsskjáinn þegar flautað verður til leiks.

 

Viðtöl við landsliðsmenn

Fyrir nokkrum  kom út bókin Ísland á HM eftir leikarann og rithöfundinn góðkunna Gunnar Helgason en hann lýsir bókinni sem hreinni og klárri skemmtun. „Í henni eru stuttir kaflar af óvæntustu sigrum Íslands á HM og óvæntustu úrslitum á HM í gegnum tíðina. Þarna eru líka viðtöl við nokkra landsliðsmenn þar sem þeir segja okkur hluti sem þeir hafa annars ekki sagt frá eins og það hvernig það er að fara út sem óharðnaður unglingur í harðan heim atvinnumennskunnar og hver er eftirminnilegasti leikurinn þeirra á Orkumótinu í Eyjum.“ Gunnar segir að helsta markmiðið með bókinni hafi veri að blása lesandanum ákveðin baráttuanda í brjóst fyrir heimsmeistaramótið. „Þannig í lok bókarinnar rísi hann á fætur og hugsar: Já! Við erum að fara að vinna HM!“

Á leiðinni á Króatíuleikinn fyrir ári síðan með bræðrum og viðhengjum.

Fyrsta HM minningin frá 1974

En hver skyldi vera fyrsta minning Gunnars af HM? „Það er eitthvað um Paul Breitner og Johan Cruyff frá 1974. En Mario Kempes var einhvernveginn risinn á HM 78. Úrsltialeikurinn þá var hreint ótrúlegur, tafðist út af allskonar rugli og að lokum unnu Argentínumenn Hollendingana í framlengingu. Þetta var æðislegur leikur.“

Sigur gegn Argentínu jafntefli gegn Nígeríu

Gunnar er með það á hreinu á strákunum eigi eftir að ganga vel út í Rússlandi þar sem mótherjarnir eru meðal annara Messi og félagar í argentíska landsliðinu. „Ég held að við náum í fjögur stig. Við vinnum Argentínu, gerum jafntefli við Nígeríu og verðum þá komnir áfram og Heimir hvílir lykilmenn í leiknum á móti Króatíu og þar af leiðandi vinnur Króatía riðilinn og við verðum í öðru sæti. Vinnum svo Dani í 16 liða úrslitum og Spán í 8 liða og mætum svo Brasilíu í 4ra liða úrslitum. Það verður erfiður leikur en við förum áfram úr vító.“

Á Arnarhóli þegar við unnum England.

Heldur ekki með öðru liði

Það vottaði fyrir örlítilli hneykslun hjá Gunnari er blaðakona spurði hann hvort hann héldi með öðru liði en því íslenska á mótinu. „Öðru liði? Hvað meinaru? Á maður að halda með öðru liði? Ég held með engu öðru liði þar sem við erum að fara í úrslitaleikinn. Það er bara þannig,“ segir Gunnar, frekar hneykslaður að lokum.

Höfundur: Ágústa Arna Sigurdórsdóttir

Myndir: í einkaeigu.