Bæjarstjórn Hafnarfjarðar og íþrótta- og tómstundanefnd standa í dag fyrir afhendingu viðurkenninga til íþróttamanna sem keppa með hafnfirskum liðum, Íslandsmeistara, hópa bikarmeistara, Norðurlandameistara, heimsmeistara og sérstakra afreka, ásamt vali á íþróttakonu, íþróttakarli og íþróttaliði Hafnarfjarðar á árinu 2018.

Hátt í 500 einstaklingum sem hafa á árinu 2018 unnið Íslandsmeistaratitla með hafnfirsku liði er veitt viðurkenning á hátíðinni. Úthlutað verður úr sjóði sem Rio Tinto á Íslandi, ÍBH og Hafnarfjarðarbær standa að sem ætlað er að efla íþróttastarf fyrir yngri en 18 ára. Viðurkenningar verða veittar bikarmeisturum og þeim sem hafa náð alþjóðlegum titlum. Val á íþróttakonu, íþróttakarli og íþróttaliði Hafnarfjarðar fer fram en alls hafa tíu tilnefningar verið kynntar í hvorum flokki. Útnefnt verður lið Hafnarfjarðar 2018.

Allir bæjarbúar eru velkomnir og fer hátíðin fram í íþróttahúsinu við Strandgötu kl. 18:00 í dag,  fimmtudaginn 27. desember.