Á laugardaginn ræðst hvaða einstaklingar  skipa bæjarstjórn Hafnarfjarðar næstu fjögur árin. Við í Miðflokknum  höfum  á síðustu vikum verið að fara ofaní saumana á fjölmörgum þáttum samfélagsins hér í bænum.

Niðurstaðan er sú að hér hefur margt gott verið gert á liðnu kjörtímabili og er það ánægjulegt. Hins vegar blasa líka við fjölmörg verkefni og sum þeirra afar brýn. Á velferðarsviðinu bíða mörg mjög áríðandi verkefni. Meðal þeirra eru málefni eldri borgara þar sem þriggja ára bið er eftir sjálfsagðri þjónustu eins og dagdvöl. Ennfremur eru 70 hafnfirskir eldri borgarar á biðlista eftir hjúkrunarrými og athugið, þetta eru okkar veikustu samborgarar. Bið eftir félagslegu húsnæði er löng. Þessum hópum, eldri borgurum og öryrkjum er naumt skammtað til að draga fram lífið. Bæjaryfirvöld verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma til móts við þennan hóp og lækka álögur á þá sem við hvað naumastan kost búa.

Á þessu kjörtímabili hefur ríkt sérkennileg stefna í lóða og skipulagsmálum. Stefna sem leitt hefur til þess að eftir skamman tíma, þrjá mánuði eða svo, verður engin ný íbúð í fjölbýli til í bænum og verður svo næstu tvö árin. Þetta hefur í för með sér að íbúðaverð hækkar, leigugjald hækkar og þetta gerir unga fólkinu okkar enn erfiðara fyrir í húsnæðismálum og lífskjör þeirra versna enn.
Við þurfum að bretta upp ermar. Eða eins og segir í einkunnarorðum Miðflokksins: Við greinum vandann, finnum skynsamlegustu lausnirnar og framkvæmum.

Kæri kjósandi. Ég óska eftir stuðningi þínum með því að þú merkir x við M í kjörklefanum á laugardaginn.

Höfundur skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í Hafnarfirði.