Karel Ingvar Karelsson, fyrrverandi skipstjóri, hefur staðið að undirbúningi Sjómannadagshátíðar Hafnfirðinga í 60 ár. Karel og eiginkona hans, Halldóra Júlíusdóttir, tóku á sunnudag á móti viðurkenningu og þakklæti frá Hafnarfjarðarbæ og Hafnarfjarðarhöfn fyrir að hafa staðið í eldlínunni að undirbúningnum.

Karel ásamt eiginkonu sinni, Halldóru Júlíusdóttur.

Í umsögn sem lesin var upp á Sjómannadaginn segir m.a.: „Karel var sjálfur fenginn til að róa á sjómannadaginn fyrir 60 árum síðan. Hann gerir sér góða grein fyrir mikilvægi þess að kynna sjómannsstarfið, minnast þeirra sem hafa látist í slysum á sjó og heiðra aldna sjómenn. Í vetur sem leið stóð hann fyrir myndasýningu í menningarsal Hrafnistu á myndum af öllum þeim sem heiðraðir hafa verið á Sjómannadaginn í Hafnarfirði frá upphafi ásamt nöfnum þeirra. Sýningin vakti heilmikla eftirtekt enda margir tengdir því ágæta fólki sem prýðir myndirnar. Með elju sinni í öll þessi ár hefur Karel rennt styrkum stoðum undir þær hefðir og venjur sem ríkja í kringum daginn sem hefur orðið til þess að í dag standa fjölmargir aðilar við Flensborgarhöfnina að hátíðarhöldunum og leggja Karel lið við að gera daginn sem hátíðlegastan.

Karel í einum bátanna sem notaðir eru í árlegri róðrarkeppni á Sjómannadag.

Stoltur og þakklátur

Í stuttu samtali við Fjarðarpóstinn sagðist Karel vera stoltur af því hversu mikið Hafnfirðingar hafa haldið í eigin hefðir eins og á sjómannadaginn. Hann er þakklátur öllum þeim sem hafa stutt við og komið að undirbúningi þessara hátíðar undanfarna áratugi. Síðustu ár vill hann sérstaklega nefna Lúðvík Geirsson, Andra Ómarsson, Gísla Johnsen og Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Einnig vill hann færa Hafnarfjarðarhöfn og fjölmörgum fyrirtækjum sem hafa styrkt hátíðarhöldin á einn eða annan hátt, sínar bestu þakkir.

Hér er viðtal Fjarðarpóstsins við Karel Ingvar fyrir réttu ári síðan.

Myndir/Olga Björt.