Kjötkompaní á Dalshrauni verður sjö ára nú í september. Matreiðslumaðurinn Jón Örn Stefánsson opnaði verslunina árið 2009 eftir að hafa lengi gengið með þessa hugmynd í maganum í orðsins fyllstu merkingu. Eftir opnun hennar varð ljóst að allar þær nýjungar og vöruframboð, sem hann bauð upp á, féllu strax vel í kramið hjá viðskiptavinunum.

Jón Örn kallar sig gaflara þrátt fyrir að hafa fæðst á Ísafirði. Hann gekk í Víðistaðaskóla, hóf svo nám í Flensborgarskólanum þar til hann áttaði sig á því að matreiðslan væri hans hilla í lífinu. Hann lærði kokkinn á Arnarhóli sem var á sínum tíma einn allra besti veitingastaður landsins. „Ég hringsólaði aðeins á milli veitingastaða eins og gengur eftir að ég kláraði námið og endaði svo hér fyrir sjö árum,“ segir Jón Örn brosandi.

Kjötkompaní Kjötkompaní Kjötkompaní Kjötkompaní

Ásamt því að reka sælkeraverslunina við Dalshraun rekur hann einnig umfangsmikla veisluþjónustu og fer öll vinnslan fram í 450 ferm. húsnæði við Bæjarhraun.
Í dag eru 29 manns á launaskrá og hefur vöxtur fyrirtækisins farið fram úr björtustu vonum að sögn Jóns Arnar. „Í fyrirtækinu starfa sjö faglærðir einstaklingar þannig að það vantar ekkert upp á þekkingu og reynslu þegar kemur að spurningum um kjötið, matseld eða framreiðslu. Við höfum verið að bæta við vöruúrvalið á síðustu árum og erum með gífurlega mikið af vörum sem unnar eru frá grunni í fyrirtækinu en hjá okkur getur þú fengið forrétti, aðalrétti, meðlæti og deserta sem við gerum sjálf frá grunni.“
Aðspurður hvaða réttir séu vinsælastir segir Jón Örn að það sé erfitt að segja. „Fólk kemur þó sérferðir úr Mosfellsbæ og Reykjanesbæ og fleiri stöðum til þess að ná sér í lambakonfektið okkar, nautalundirnar og hamborgarana.“

Afmælishátíð

Það verður heljarinnar fjör í Kjötkompaní dagana 8.-10. september. „Við verðum með ýmis flott tilboð. Grillað verður fyrir utan hjá okkur og fólki sýnd réttu handtökin. Kynning verður á hinum geysivinsælu „Green Egg“ grillum. Og svo má ekki gleyma Júlladiskó sem mætir á staðinn og heldur öllum í góðum takti.“