Menningarmálin í Hafnarfirði hafa undanfarið verið að sækja í sig veðrið, sem betur fer. Þegar kreppan alræmda réð ríkjum var það menningin sem var ansi svelt. Undanfarin tvö ár hefur verið lagt meira í málaflokkinn en betur má ef duga skal. Annað er ekki hægt að segja. Öflugt menningarlíf er það sem auðgar lífið í bænum og laðar aðra að sem vilja njóta með okkur.  Við erum með öfluga pósta í bænum sem eru að sinna menningunni mjög vel. Bókasafn Hafnarfjarðar er ótrúlega öflugt í þeim verkefnum sem þau hafa sett af stað og sinnir þeim hópum sem hafa leitað eftir að fá að starfa innnan safnsins, afar vel. Hafnarborg blómstrar og er ár eftir ár að setja upp djarfar og spennandi sýningar og Byggðasafn Hafnarfjarðar eykur sífellt á vinsældir sínar og er duglegt við að fræða unga bæjarbúa, sem og aðra, um sögu bæjarins.  Fyrir utan þessar flottu stofnanir hafa laðast til bæjarins listamenn sem hafa komið sér vel fyrir. Íshúsið er orðið vagga hönnunar og sköpunar, Annríki með sína glæsilegu þjóðbúninga og það fræðslustarf sem þar er unnið og Gaflaraleikhúsið sem hefur staðið fyrir glæsilegu og metnaðarfullu leikhússtarfi og svo má ekki gleyma öflugu kóra- og tónlistarstarfi í bænum.

En hvað þarf sveitarfélagið að gera til þess að efla menningarstarfsemi enn frekar? Jú, við þurfum að auka fjármagnið sem fer í menningarstyrki, styrkja stofnanirnar okkar enn betur í þeirri vinnu sem þau eru að vinna, við þurfum að styrkja hátíðirnar okkar – hvort sem þær eru sjálfsprottnar eða rótgrónar bæjarhátíðir og svo þurfum við Hafnfirðingar að fara að eignast menningarhús, líkt og Hof á Akureyri eða Salinn í Kópavogi, til að geta komið menningunni enn betur á framfæri.

 

Helga Björg Arnardóttir er tónlistarmaður, hefur starfað í menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar og er í 3.sæti Bæjarlistans.