Björk Jakobsdóttir, leikstjóri.

Fyrsta skiptið er spennandi, opinská og grenjandi fyndin sýning Í Gaflaraleikhúsinu um allt það sem margir þora ekki að tala um. Höfundar og leikarar eru ungmenni sem hafa þrátt fyrir ungan aldur skapað sér nafn í íslenskum leik- og skemmtibransa. Frumsýning verður nk. sunnudag og við litum inn á æfingu og ræddum við Björku Jakobsdóttur leikstjóra.   

Björk hafði samband við þennan hóp því henni fannst þau hafa verið skapandi og unglingar horfa upp til þeirra. Í hugmyndavinnunni kviknaði svo að taka fyrir fyrsta skiptið, sem allir geta tengt við á einhvern hátt. „Þessir krakkar eru aðeins eldri en algengt er að missa mey- eða sveindóminn og geta því miðlað eigin reynslu verið einlæg. Við vildum þó einnig hafa húmor án þess að svíkja umfjöllunarefnið. Það verður að vera þor en enginn á að þurfa að fara hjá sér vegna of mikillar nektar eða nándar,“ segir Björk og tekur dæmi að kynlíf sé tengt við tennisleik. Hún segist vera mjög montin af áherslunni að atvinnuleikhús sé fyrir ungt fólk. „Það er listrænt val að vinna með þessum hópi og aldri. Þessir krakkar hafa töluverða reynslu í leiklist og eru í afburðarflokki hafnfirskra ungmenna af því að við höfum verið að rækta þau og styrkja þeirra starf.“

Atriði úr verkinu, þar sem leikin er fullnæging.                                                              

Enginn rétttrúnaður

Fjögur leikenda, Arnór Björnsson, Berglind Alda Ástþórsdóttir, Inga Steinunn Henningsdóttir og Óli Gunnar Gunnarsson eru hafnfirsk en Björk segist hafa krækt í Mikael Emil Kaaber í Verzló. „Þau eru öll á leiðinni í skapandi bisness og það sést svo vel í þessari sýningu. Áhorfendur geta hlegið að eigin veruleika sem settur er fram af jafningjum sem þau virða. Eldra fólk fjallar gjarnan um vandamál unglinga en hér er enginn réttrúnaður heldur þetta fallega saklausa sem langflestir tengja við. Við völdum þann boðskap að vera virðingar megin,“ segir Björk, sem langar að þakka Leiklistarráði Hafnarfjarðarbæjar og bænum fyrir að styrkja verkefnið. Næstum uppselt er á fyrstu þrjár sýningar en þau eru með tilboð, 2500 á mann ef um er að ræða hópa. Hér er hlekkur á sýninguna. 

Mynd af Björku: ÓMS. 
Aðrar myndir: OBÞ