Ari Matthíasson, þjóðleikhússtjóri, kom leikaranum Stefáni Karli Stefánssyni á óvart í frumsýningarveislu Með fulla vasa af grjóti, sem fram fór í gærkvöldi. Lundur í Hellisgerði verður tileinkaður Stefáni Karli sem mun gróðursetja þar tré á næstunni. 

Ari dró fram myndaramma með mynd úr Hellisgerði í Hafnarfirði og tilkynnti Stefáni Karli að hann hefði haft samband við bæjarstjórann í Hafnarfirði, Harald L. Haraldsson, og að viðeigandi aðilar innan bæjarins hafi samþykkt að lítill lundur í Hellisgerði verði tileinkaður Stefáni Karli. „Á þessum fallegasta stað Hafnarfjarðar þar sem bæði ég lék mér svo oft sem barn og líka pabbi minn, Stefán Björgvinsson. Því verður lundurinn skírður „Stefánslundur“ og þar fæ ég að gróðursetja tré, vonandi sem fyrst svo það fái að vaxa og dafna um ókomna tíð,“ sagði Stefán Karl hrærður í færslu á Facebook.

Stefánarnir tveir, Stefán Karl og Stefán Björgvinsson, en Hellisgerði var leiksvæði beggja feðganna. Myndin er tekin heima hjá ömmu Stefáns Karls við Hraunbrún, þegar hann var 4 ára.  

Uppsprettan er í hrauninu

Fjarðarpósturinn hafði samband við Stefán Karl sem sagðist vera að átta sig á hvar lundurinn sé og hlakki til að skoða hann betur. „Ég er stoltur Hafnfirðingur og verð alltaf, þar er ég fæddur og uppalinn bæði sem lítill drengur og ekki síst sem leikarinn sem ég svo síðar varð í lífinu. Uppsprettan er í hrauninu.“

Á Facebook síðu sinni segir Stefán Karl að þetta sé einhver fallegasta gjöf sem hann hefur fengið og ekki síst fyrir þær sakir hversu táknræn hún er. „Því ef það er til eftirlíf þá er það liggur það „hérna megin“ í því sem við skiljum eftir okkur þegar við förum. Tré er tákn lífs og endurnýjunar og það er nákvæmlega það sem ég vil að við hugsum um þegar við stöldrum við lundinn.“

Myndir: frá Stefáni Karli.