Markaðsstofa Hafnarfjarðar, fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar, vinnur þessar vikurnar að gerð markaðsstefnumótunar fyrir Hafnarfjörð í samstarfi við Manhattan Marketing. Segja má að MsH hafi allt frá stofnun stofunnar unnið að því að farið yrði í slíka vinnu. Ása Sigríður Þórisdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðar, sagði okkur nánar frá því.

„Verkefnið felst í að búa til heildstæða markaðsstefnumótun og aðgerðaráætlun fyrir Hafnarfjörð sem spennandi stað til að búa á, starfa, reka fyrirtæki og heimsækja. Það er lögð er áhersla á samtal við bæjarbúa, fyrirtækin í bænum og hagaðila og þegar hafa verið tekin fjölmörg einstaklingsviðtöl (við íbúa og fulltrúa fyrirtækja), haldnir hafa verið fundir í rýnihópum og rafræn íbúakönnun virkjuð,“ segir Ása. Í næstu viku verður svo send út könnun sem snýr að fyrirtækjununum í bænum.

Opinn vinnufundur í Flensborg

Hápunktur vinnunnar verður þann 10. nóvember þegar haldinn verður opinn vinnufundur íbúa í Flensborgarskóla sem allir Hafnfirðingar eru hvattir til að taka þátt í. „Þar verða niðurstöður þeirra vinnu sem unnin hefur verið kynntar og þátttakendum gefið tækifæri til að koma sínum hugmyndum og sýn á framfæri. Þátttakendur munu fá tækifæri til að meta hvort niðurstöðurnar séu það sem þeim finnst bærinn sinn standa fyrir. Við hvetjum Hafnfirðinga eindregið til að taka þátt í þessari vinnu því þátttaka þeirra skiptir öllu máli fyrir framgang verkefnisins. Markmiðið er að ganga í takt,“ segir Ása.

Hér fer fram skráning á íbúafundinn.

Mynd/OBÞ