Forsvarsmönnum Sjálfstæðisflokksins hér í bæ er tíðrætt um mikilvægi þess að leggja áherslu á fjölbreytta búsetumöguleika.  En alla áætlanagerð skortir og engin húsnæðisáætlun er til hér í Hafnarfirði þar sem horft er til markvissrar uppbyggingar á húsnæði fyrir lágtekju- eða millitekjuhópa hvað þá fyrir ungt fólk sem er að reyna að koma sér úr foreldrahúsum.

Á meðan er Reykjavík á fullri ferð að vinna eftir húsnæðisáætlun sem er hvort tveggja í senn félagsleg og stórhuga.  Þar sem þúsundir íbúða eru annaðhvort í byggingu eða á áætlun á næstu árum.

Þegar þetta er skrifað hefur núverandi meirihluti í Hafnarfirði aðeins úthlutað 42 íbúðum til húsnæðisfélaga sem vilja byggja upp án hagnaðarsjónarmiða hér í bænum.  Og sú uppbygging er enn ekki farin af stað vegna óhagstæðra skipulagsskilmála.

Það er mikilvægt að hefja nú þegar vinnu við húsnæðisáætlun og skipulag sem tryggir fjölbreytt byggingarsvæði fyrir allar gerðir íbúða með áherslu á litlar og meðalstórar íbúðir á grundvelli markmiða um húsnæði fyrir alla og félagslega blöndun.

En hér í Hafnarfirði er greinilega hvorki vilji né metnaður til staðar hjá núverandi meirihluta til að byggja upp íbúðir fyrir þá hópa sem hafa lágar- eða millitekjur hvað þá ungt fólk sem er að hefja sinn búskap.

Það er ljóst að það er kallað eftir markvissri húsnæðisáætlun hér í Hafnarfirði og aðgerða er þörf strax!  Við höfum ekki efni á því að bíða mikið lengur!

Friðþjófur Helgi Karlsson varabæjarfulltrúi og skipar 2. sætið á lista Samfylkingarinnar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor.