Brynjar Ari Magnússon er 14 ára og er meðal 20 bestu CrossFit keppenda í heiminum í aldursflokknum 14 – 15 ára. Hann hefur æft hjá Crossfit Hafnarfirði síðan hann var 11 ára, en hafði áður margra ára grunn í fimleikum. CrossFit Hafnarfirði mun standa að opinni æfingu 16. júní nk. til að safna áheitum upp í þátttöku Brynjars Ara á heimsleikana í CrossFit í Wisconsin í Bandaríkjunum í ágúst. Aðeins 20 bestu komast á heimsleikana í þessum aldursflokki.

Brynjar Ari var með sterkan grunn í fimleikum áður en hann fór að æfa Crossfit.

„Ég var kominn með leið á fimleikum þegar ég var 11 ára og vantaði einhverjar meiri áskoranir, því í fimleikum æfir maður mikið til það sama og verður mjög góður í því. Mig vantaði meiri fjölbreytni og útrás,“ segir hinn afar sterkbyggði Brynjar Ari, og ber vel með sér að hafa náð góðum árangri á skömmum tíma. „Pabbi var að æfa hérna í CrossFit Hafnarfirði og tók mig með á unglingaæfingu. Ég fann strax að ég var með mikla hæfni í fimleikaæfingunum í CrossFit vegna grunnsins. Fólk með fimleikagrunn er oft mjög fljótt að ná góðum árangri í CrossFit. Æfingarnar eru áþekkar og einnig svipar CrossFit til ólympískra lyftinga. Svipuð tækni.“

Ólympískar lyftingar ery hluti af æfingum sem teknar eru í Crossfit.

Hefur eignast góða vini

Fyrir utan æfingarnar og árangurinn segir Brynjar Ari að félagsskapurinn Í CrossFit geri mikið fyrir hann. „Það er ótrúlega gaman í þessu og ég hef eignast marga vini með þetta sameiginlega áhugamál. Þetta verður sífellt skemmtilegra eftir því sem bætingar aukast. Ég finn styrkleika mína hérna og hef keppnisskapið sem þarf.“ Brynjar Ari er bjartsýnn á góðan árangur á heimsmeistaramótinu og stefnir ótrauður í eitthvert 10 efstu sætanna. Aðspurður um framtíðina í þessum efnum segist hann bæði langa að klára eitthvað nám og stefna á atvinnumennsku í CrossFit. Tíminn verði þó að leiða það í ljós.“

Næsta laugardag, 16. júní, verða opnar æfingar kl 9:00 og 10:00 í CrossFit Hafnarfirði. Allir eru velkomnir að koma og prófa. Æfingin kostar 1000 kr og mun allur ágóði renna til Brynjars Ara og keppnisferðar hans. 

Myndir/OBÞ