„Ég held að margir bæjarbúar hafi ekki gert sér grein fyrir hvað þetta er komið langt. Framkvæmdir eru hafnar þrátt fyrir kæru sem enn á eftir að taka fyrir,“ segir Guðmundur Ingi Markússon, íbúi í Hafnarfirði sem stofnað hefur Facebook síðu og undirskriftarsíðu þar sem fólk er hvatt til að mótmæla byggingu háhýsa við Flensborgarhöfn. Guðmundur segist hafa heyrt að margir hafi ekki tekið þetta alvarlega, enda nýbúið að samþykkja skipulagslýsingu sem sagði til um lágreistar byggingar sem falli vel að aðliggjandi byggð.

„Það eru líka kosningar framundan og því gott tækifæri fyrir fólk að ná eyrum bæjarstjórnar og frambjóðenda. Svo má ekki gleyma því að dómnefnd skilar áliti um framtíðarskipulag Flensborgarhafnar fljótlega og mikil hætta á því að framkvæmdin hafi fordæmisgildi. Því er mikilvægt að vakna til vitundar svo við fáum ekki annan Norðurbakka í hrópandi mótsögn við Suðurbæinn,“ segir Guðmundur en leggur áherslu á að ekki sé ætlunin að mótmæla því að þarna sé byggt, heldur hæð þess sem á að byggja, sem sé allt að 22 metrar. „Þetta er langt umfram húsnæðisþörf Hafró, sem er þó er gleðilegt að fá í bæinn.“

Einstaklingsframtak til verndar bæjarmynd

Guðmundur segir að Facebook síðan og undirskriftarlistinn séu einungis einstaklingsframtök. „Það hefur verið töluverð umræða inni á „Hafnarfjörður og Hafnfirðingar“ og þar kviknaði hugmyndin. Mér einfaldlega blöskraði þetta. Ég er íbúi við Suðurgötu þar sem háhýsin munu blasa við.“ Ég er einnig Hafnarfirðingur til 15 ára og hef skotið rótum. Oft hefur mér fundist sem bæjaryfirvöld kunni ekki að meta gamla bæinn og skipulagið eftir því. Gangi maður eftir ströndinni niður í miðbæ sjást nær aðeins risavaxnar nýbyggingar; fjörður og umhverfi ásamt Norðurbakkablokkunum. Þetta snýst ekki aðeins um útsýni, heldur bæjarmyndina, sem er einstök.“

Hér er Facebook síðan.

Hér er slóð á undirskriftalistann.