Wolfsburg og Lyon mætast í úrslitaleik meistaradeildar Evrópu kvenna í dag, fimmtudaginn 24. maí. Útsending byrjar kl. 15.30 og leikurinn kl. 16.00. Með liði Wolfsburgar leikur Haukastúlkan Sara Björk Gunnarsdóttir og Haukar ætla að styðja hana í leiknum með því að horfa á hann saman á tjaldi á 2. hæð á Ásvöllum.

Sara Björk sem verður að öllum líkindum fyrsti íslenski leikmaðurinn til þess að spila í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu hefur svo sannarlega lagt sín lóð á vogarskálina til þess að koma liðinu í úrslitaleikinn. Hún hefur skorað sex mörk fyrir Wolfsburg til þessa í keppninni.

Líklega þurfa margir að sitja á gólfinu og því er æskilegt að taka með sér einhvers konar sessur. Þetta verður frábært tækifæri fyrir unga iðkendur í knattspyrnudeild Hauka að horfa saman á eina bestu knattspyrnukonu heims á heimavellinum, Ásvöllum.

Samsett mynd aðsend.