Alþjóðakörfuboltasambandið, FIBA, hefur verið í áralöngu samstarfi við SOI, alþjóðasamtök Special Olympics og nú er mikil áhersla á körfubolta fyrir börn. Kristinn Jónasson fór sem fulltrúi Íslands á fund Special Olympics í Portúgal í vor, þar sem verkefnið var kynnt og hefur í kjölfarið unnið að því að setja á fót körfuboltaæfingar hjá Haukum í Hafnarfirði. Við kíktum á æfingu sl. sunnudagsmorgun og kynntum okkur málið.

Það vakti mikla lukku þegar tvær sjálf löggan mætti á staðinn til að fylgjast með framtakinu. Kristinn starfaði sjálfur um tíma við sumarafleysingar í lögreglunni. Þarna er Fanney Sigurgeirsdóttir.

Æfingarnar fara í Ólafssal, en Ólafur Rafnsson heitinn, fyrrum forseti ÍSÍ var einn af frumkvöðlum hjólastólakörfubolta á Íslandi. Kristinn segir litla fjölbreytni í úrvali íþrótta fyrir börn með sérþarfir. „Ég tók að mér fyrir 3 árum að þjálfa byrjendaflokk Hauka, þ.e. 6-7 ára börn, þar sem mig langaði að þessum tíma með krökkunum mínum. Sonur minn, Kristófer, er með Down´s heilkenni og var með mér á æfingunum fyrsta eina og hálfa árið að öllu jöfnu. Svo fór iðkendum að fjölga og hraðinn og hávaðinn meiri. Það hentaði honum ekki þar sem hann hélt ekki í við hina krakkana hvað varðar getu í íþróttinni. Hann hætti því að mæta þar sem hann áttaði sig alveg á stöðu sinni.“

Foreldrar og systkini þátttakenda eru velkomin með á æfingarnar.

Hildur Emelía stendur sig vel sem aðstoðarþjálfari.

Dóttirin aðstoðarþjálfari

Dóttir Kristins og núverandi aðstoðarþjálfari hans, hin 8 ára Hildur Emelía, hélt hins vegar áfram og gengur að sögn Kristins nokkuð vel. „Mér þótti frekar leiðinlegt að sonur minn gæti ekki spilað því við erum með körfu á planinu heima og hann á það alveg til að raða niður nokkrum skotum í röð, þó hann sé ekki mikið fyrir að deila boltanum með öðrum. Á ráðstefnu FIBA í Portúgal hitti ég m.a. aðra körfuboltaþjálfara sem hafa þjálfað börn með þroskahömlun í tugi ára. Þá kviknaði verulega áhuginn fyrir þessu verkefni og ég fékk vilyrði frá Íþróttastjóra körfuknattleiksdeildar Hauka, Ívari Ásgrímssyni, til þess að setja verkefnið af stað. Okkur þótti þetta kjörinn tími þar sem verið var að taka Ólafssal í notkun,“ segir Kristinn.

Málin rædd og allir kynna sig og segja aldur sinn.

Hilmir Sveinsson réttir boltann.

Kristinn segir jafnframt að þetta verkefni, sem hefur aðeins staðið yfir í nokkrar vikur, sé að fá mjög góð viðbrögð í samfélaginu. „T.a.m. hafa fyrirtæki í bænum sett sig í samband við mig vegna áhuga á að veita því styrki og fólk úr íþróttalínu boðið fram aðstoð sína við þjálfun ofl. Ég vona að verkefnið vaxi og dafni vel innan okkar herbúða og það leiði til þess að aðrar körfuknattleiksdeildir á landinu komi sambærilegum verkefnum að stað svo við getum haldið mót og spilað á jafnréttisgrundvelli,“ segir Kristinn. Æfingarnar fara fram kl. 10-11 á sunnudögum.

Áhuginn leyndi sér ekki.

Lögreglukonurnar Sólveig Sverrisdóttir og Fanney Sigurgeirsdóttir.

Myndir OBÞ