Hvað viljum við sjá á Óla Rún túninu? Reglulega fer í gang umræða um túnið og hvað eigi að vera þar.  Sögur fara af stað um að á bak við tjöldin sé verið að vinna í að þar verði íbúðabyggð og eitthvað sé að gerast í skipulagsmálum en formleg svör fást ekki.  Óla Run túnið býður upp á fjölmarga útivistar og leikmöguleika fyrir börn og ungmenni.  Þar gæti verið hjólabrettaaðstaða, reiðhjólaskemmtigarður, snjóbretta og snjóþotusvæði, frisbígolfvöllur, lítill knattspyrnuvöllur, grill, borð og bekkir, lítið hundagerði og eitthvað fleira.  Allt þetta gæti rúmast saman á þessum bletti.  Þetta er með hæfilegan halla til þess að þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref á skíðum eða snjóbrettum geta nýtt sér þetta á góðviðris vetrardögum. Með því að vera með stíga umhverfis túnið væri svo hægt að leggja gönguskíðaspor á veturnar fyrir þá sem vilja taka létta göngu.  Nálægðin við Suðurbæjarlaug og hugsanleg færsla leiksvæða þar gæti komið til greina til að fjölga bílastæðum við laugina sjálfa.  Vissulega er talsverð umferð um Strandgötuna að Ásbraut en aðeins ætti að  þurfa að setja láa mön með lágri girðingu til að tryggja að börnin renni ekki út á götu   Höldum fast í grænu svæðin og gerum þau útivistarvænni. Förum út með börnin okkar, eigum með þeim gæðastundir og sköpum góðar minningar.

Guðmundur Fylkisson