Flensborgarkórinn á 10 ára afmæli um þessar mundir og mun í tilefni þess halda tónleika laugardaginn 29. september kl. 15 í Viðistaðakirkju. Við hittum Hrafnhildi Blomsterberg, stjórnanda hans og Kór Flensborgarskólans sl. 23 ár, Magnús Þorkelsson, skólameistara Flensborgarskólans og tvo félaga úr kórnum, þau Svanhvíti Erlu Traustadóttur og Egil Karel Logason.

Egill Karel, Hrafnhildur, Svanvhít og Magnús.

Hrafnhildur: „Í Flensborgarkórnum eru 45 meðlimir sem flestir ólust upp í skólakórnum. Það hafa verið forréttindi að starfa með öllu þessu unga fólki þessi ár og njóta þess að hafa sterkt bakland frá stjórnendum og starfsfólki Flensborgarskólans. Kórstarf er samstarfsverkefni þar sem allir gegna mikilvægu hlutverki. Svanhvít og Egill sem hér eru með mér eru dæmi um kórfélaga sem veigra sér ekki við því að taka á sig ábyrgð og elska að syngja. Að vera kórstjóri er öfundsvert starf. Það er eins og að taka ómótaðan leir og búa til listaverk að vinna með þessu frábæra fólki. Það er svo einstaklega gefandi að syngja saman í kór. Fólk kemur jafnvel þreytt á æfingu en fer endurnært heim. Kórfélagar bindast sterkum vináttuböndum og er félagslífið stór þáttur kórstarfsins. Kórinn hefur ferðast mikið, farið á keppnir og mót þar sem unnið er með öðrum kórstjórum og kórum og þá myndast oft falleg vinátta.“

Magnús: „Það er mikilvægt fyrir skóla eins og okkar að rækta listafólk meðal nemenda. Kórarnir eru skrautfjaðrir og eitt af flaggskipum skólans. Flensborgarkórinn var eitt árið einn af 200 bestu kórum í heiminum samkvæmt lista Interkultur. Kórstarfið er félagslega mikilvægt og ég get ekki hugsað mér útskrift án kóranna. Þetta setur ákveðið yfirbragð og menningu á skólann. Þegar hér eru vortónleikar og Maístjarnan er tekin þá er nánast hálfur salurinn kominn upp á svið því öllum sem hafa verið í kórnum er boðið upp að syngja með. Við höfum líka verið að byggja upp heilsueflandi framhaldsskóla og menntun til farsældar. Kórinn, vinaböndin og það sem gerist þar eru hluti af þessari uppbyggingu.“

Svanhvít Erla (sópran 1): „Ég byrjaði í barnakór hjá Hrafnhildi fyrir 20 árum, þá 12 ára, og varð strax alveg heilluð og ákvað að velja Flensborg sem framhaldsskóla til að komast í kórinn. Ég hef sungið hjá Hrafnhildi í 16 ár, fyrst með skólakórnum og síðan Flensborgarkórnum. Söngur hefur alltaf haft mikla þýðingu fyrir mig en einnig uppbyggingarstarfið sem fram fer innan kórsins. Síðustu 5 ár hef ég verið formaður eldri kórsins og staðið að baki því starfi og það opnaði nýjar leiðir fyrir mér. Ég ákvað t.d. að fara í frekara nám, sótti um stjórnunarstöðu í vinnunni og slíkt. Þetta hefur því gert mikið fyrir mig persónulega. Ég er þakklát fyrir starfið og fólkið.“

Egill Karel (tenór 2): „Ég hef alltaf haft unun af því að syngja. Amma mín var mikil kórmanneskja alla tíð frá því hún var 16 ára. Ég er alinn upp við mikinn söng á heimilinu. Ég varð auðvitað að feta í þau fótspor fyrst ég hafði röddina. Ég hef sungið hjá Hrafnhildi í 14 ár og það hefur opnað aðrar leiðir. Ég hef sungið með ýmsum hljómsveitum og inn á plötur og ýmislegt annað. Það skemmtilegasta við þetta er að hafa eignast vini um allan heim. Við höfum ferðast mikið og eigum fría gistingu víða um heim. Við vorum síðast í Eistlandi.“

Aðspurð segja Svanhvít og Egill að það besta við Hrafnhildi sem kórstjórnanda sé aginn og kröfurnar. Það sé gott að hafa einhvern sem er ákveðinn, ástríðufullur og dregur fram það besta í fólki.

Flensborgarkórinn er fyrir 20 ára og eldri en Kór Flensborgarskólans fyrir 16-20 ára. Inntaka í skólakórinn gengur vel en fleiri mega bætast við. Eldri kórinn verður með raddprufur í Flensborgarskólanum sunnudaginn 23. september kl. 14:00-16:00 og mánudagskvöldið 24. september kl. 20:00-21:00. Opnað hefur verið fyrir fleiri félaga sem ekki hafa verið nemendur í Flensborg.

Flensborgarkórinn í einni af ferðum sínum erlendis.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kórinn syngur í Víðistaðakirkju:

Saga Flensborgarkórsins í grófum dráttum:

2008 – Nokkrir útskrifaðir kórfélagar úr Kór Flensborgarskólans taka sig saman og leggja til að kórinn sé stofnaður. Það hafði verið reynt einu sinni áður og lítill kór starfaði í rúmt ár, en ekki var nægur fjöldi til að halda starfinu áfram. Haldnar voru raddprufur vorið 2008 og þann 20. júní komu saman 16 manns auk Hrafnhildar Blomsterberg kórstjóra og héldu stofnfund Flensborgarkórsins. Í dag telur kórinn 45 meðlimi 20 ára og eldri.

2009 – Kórinn tók á móti þýskum ungmennakór sem nokkrir félaganna höfðu hitt í kórakeppni á Spáni árið 2007, þá með Kór Flensborgarskóla. Kórarnir héldu sameiginlega tónleika í Hafnarfirði og í Stykkishólmi.

2010 – Kórinn hélt í sína fyrstu alþjóðlegu kórakeppni; The singing world sem haldin er í St. Pétursborg í Rússlandi. Þar keppti kórinn í flokki blandaðra kóra og gerði sér lítið fyrir og sigraði þann flokk.

2011 – Kórinn tók þátt í kórahátíðinni Cantat Novi Sad í Novi Sad í Serbíu. Þar vann kórinn í viku með kórstjóranum Peter Dejans og fleiri kórum að verkum eftir mörg af fremstu núlifandi tónskáldum Evrópu og þá sérstaklega Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna. Verkin voru svo flutt á tónleikum í lok vikunnar.

2012 – Kórinn skellti sér í tónleikaferð til Akureyrar og hélt tónleika í Hofi.

2013 – Kórinn tók þátt í alþjóðlegu Anton Bruckner kórakeppninni sem haldin er í Linz í Austurríki. Kórinn keppti í flokki blandaðra kóra og flokki kirkjulegrar tónlistar og hlaut gullviðurkenningar í báðum flokkum. Kórinn upplifði líka einhverjar mestu rigningar sem Austurríki hefur kynnst og komst næstum ekki heim vegna flóða.

2014 – Kórinn hlaut þann heiður að vera einn boðskóra á ungmennalistahátíðinni Festival Junger Künstler sem haldin er í Bayreuth í Þýskalandi árlega. Þar dvaldi kórinn í tvær vikur og æfði í 8 klukkustundir á dag með sænska kórstjóranum Fred Sjöberg. Efnisskráin var fjölbreytt og spannaði allt frá klassískri nútímatónlist til útsetninga á vinsælum popplögum. Kórinn hélt ferna tónleika með eigin efnisskrá á þessum tveim vikum og þrenna með því efni sem æft var úti.

2015 – Kórinn hélt sig heima til tilbreytingar. En hélt þó að sjálfsögðu tónleika í heimabyggð, eins og raunar á hverju ári.

2016 – Kórinn tók þátt í kórakeppninni Per musicam ad astra eða til stjarnanna í gegnum tónlistina sem haldin er í borginni Toruń í Póllandi. Þar keppti kórinn í flokki blandaðra kóra og sigraði.

2017 – Kórinn hélt nokkra tónleika hér heima, meðal annars í Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og að sjálfsögðu hér heima að vanda. Um haustið lagðist kórinn í stórt verkefni ásamt Lúðrasveit Hafnarfjarðar og hélt stóra sameiginlega tónleika í bílageymslu Björgunarsveitar Hafnarfjarðar þar sem ekkert annað húsnæði í bænum hýsir svo stóran viðburð.

2018 – 10 ára afmælisárið hefur verið viðburðaríkt hingað til, þar má helst nefna þátttöku á alþjóðlegu risa kórahátíðinni Europa Cantat eða Evrópa syngur sem haldin var í Tallinn í Eistlandi í júlí og ágúst. Þar vann kórinn í viku ásamt fleiri kórum undir stjórn kórstjórans Donku Mitevu að Messa di Gloria eftir Giacomo Puccini. Verkið var svo flutt ásamt Ungsinfóníuhljómsveit Eistlands á stórum tónleikum.

Í öllum ferðum Flensborgarkórsins til þátttöku í mótum eða keppnum á erlendri grundu hefur hann haldið fjölda tónleika með eigin efnisskrám.

Fulltrúar úr báðum kórunum ásamt Lúðrasveit Hafnarfjarðar eftir æfingu fyrir stórtónleikana sem haldnir voru í húsnæði Björgunarsveitar Hafnarfjarðar sl. vetur.