Björg Fríður Freyja keypti fallegt gamalt hús við Kirkjuveg 13 fyrr á þessu ári og býr þar ásamt hundinum sínum Ösku. Björg er mikill náttúru- og umhverfisverndarsinni og lét þann draum rætast 8. nóvember sl. að stofna pínulita verslun fram að jólum á eigin heimili. Þar selur hún m.a. vörur í umboðssölu án plasts og eiturefna, en slíkar vörur fást ekki víða ennþá. Við kíktum í heimsókn. 

„Mig langaði að gera eitthvað skemmtilegt og sá pínulitla ljóstíru og hún varð bara stærri og stærri. Ég sá þetta bara fyrir mér og langaði að bjóða upp á vörur sem er ennþá erfitt að nálgast á Íslandi, þ.e.a.s  vörur án eiturefna og plasts og fallegar gjafavörur sem eru fair trade,“ segir Björg og leggur áherslu á að eitt af því versta sem við jarðarbúar gerum jörðinni okkar sé að setja eiturefni í sjóinn, sem m.a. kemur frá þvottavélum. Það fari beint út í sjó. „Jarðvegurinn getur betur unnið úr eiturefnum en ekki sjórinn. Vatnið er svo berskjaldað.“ Minni plastnotkun sé síðan bara einn angi af mörgum við að breyta um venjur og lífsstíl. „Þetta er ekki gallalaus búð og t.d. eru sumar vörur hér fluttar inn með fraktskipum og þau nota svartolíu, sem er það versta fyrir kaldan sjó og mengunin safnast fyrir.“

„Síðan hef ég verið #teamearth“

Það fer ekki á milli mála að Björgu þykir svo vænt um Móður jörð. Árið 2006 bjó hún í Bergen í Noregi, í efsta húsinu í fjallshlíð þar. „Dag einn sat ég og leit í kringum mig og sá ógeðslega mikið af rusli um allt, m.a. á milli trjánna. Fuglarnir og blómin voru að vakna til lífsins. Ég hugsaði: guð minn góður, hvernig komum við fram við þessa jörð sem gerir allt fyrir okkur með sinni hreinu fegurð!“ Á því augnabliki fannst Björgu hún upplifa eitthvað magnað eins og í draumi sem breytti viðhorfi hennar; henni fannst jörðin tala við hana og hún upplifði mesta kærleika sem hún hafði nokkurn tímann fundið fyrir, fyrr eða síðar. „Jörðin elskar okkur öll, þrátt fyrir allt sem við gerum henni. Síðan þá hef ég verið #teamearth. Það er meira en að segja það að snúa við blaðinu, en ég geri mitt besta, t.d. með því að flokka rusl og brjóta smám saman upp gamlan vana.“

Handofið fallegt teppi.

Þessi mynd heitir Móðir jörð og hana málaði Björg Fríður.

Hæggeng kaupmennska

Verslunin heitir Litla búðin og áhrifin koma frá versluninni Mixmix í Reykjavík. Þetta eru svona nokkurs kona hæggeng kaupmennska (e. slow shopping). Ég er bara með 20% álag á vörunum hér og rekstrarkostnaður er lágur því búðin er heimilið mitt,“ segir Björg og nefnir að ekkert plast sé að finna í vörum hjá henni, heldur í staðinn bambus, margnota bómullaskífur, heklaðar borðtuskur, eldhúsvörur og handofin tyrknesk gamaldags teppi. „Svo er ég með alhliða sápuskeljar sem settar eru nokkrar í taupoka í þvottavél og síðan notaðar aftur og aftur og enda svo í moltu.“ Einnig selur Björg myndlist, textíllist, trélist, ritlist og umhverfisvænar vörur sem eru góðar fyrir líkamann og unhverfið. „Þetta er í mínum anda; persónulegt og hjartað sett í reksturinn.“

Húsið er einn ævintýraheimur og þarna skreytti Björg Fríður og lýsti upp álfabyggð sem nær inn í húsið.

Verslunin er opin frá 12 -18 alla miðvikudaga til sunnudaga fram að jólum.

Myndir/OBÞ