Fjölgreinadeild Lækjarskóla var stofnuð árið 2004 og er til húsa í Menntasetrinu við Lækinn. Hingað til hefur námið þar verið fyrir nemendur í 9. – 10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar sem eiga það sameiginlegt að hafa ekki náð að fóta sig í almennum grunnskóla. Frá og með næsta hausti gefst nemendum miðdeildar skólanna einnig möguleiki á að fá þar aðstoð. Verkefnastjóri deildarinnar frá hausti 2006, Kristín María Indriðadóttir, lætur af störfum vegna aldurs í haust og ég ræddi við hana um starfið, nemendurna og námið.

Stína Maja í einni skólastofunni.

Segja má að deildin sé perla í hafnfirsku skólasamfélagi, hún hefur fengið tvenn foreldraverðlaun á fimm árum og útskrifað 205 nemendur. Nágrannasveitarfélög horfa til Hafnarfjarðar öfundaraugum fyrir þetta úrræði. Blaðakona fær hlýlegt og heimilislegt viðmót þegar hún mætir í aðalsal húsnæðis Fjölgreinadeildarinnar. Þarna er engin kennarastofa og nemendur því í stöðugum tengslum við kennarana allan skóladaginn.

Kristín María Indriðadóttir, eða Stína Maja eins og flestir þekkja hana, kemur til vinnu hálf átta, hellir upp á kaffi og kveikir á kertum og býður svo nemendur velkomna á sinn hressandi, móðurlega hátt. „Gullin mín“ eru einkunnarorð hennar.

Hópurinn sem blaðamaður náði að plata út á skólalóð í myndatöku þegar viðtalið var tekið.

Sækja börnin heim í rúmin

„Það liggur misjafnlega á nemendum deildarinnar og sumum finnst notalegt að liggja aðeins í sófunum áður en þeir fara í tíma. Við sækum börn heim inn í rúm sem ekki mæta í skólann, í samráði við foreldrana. Og við förum heim til þeirra með gassagangi og látum! Þau nenna ekkert að fá mig/okkur þannig oft heim,“ segir Stína Maja ákveðin en kímin. „Sum hafa kannski ekki mætt í skólann sinn hálfu og heilu veturna áður en þau koma hingað. Við klippum á þetta ferli sem er orðið fast hjá þeim. Foreldrarnir þurfa oft líka hjálp því þeir hafa kannski ekki haft slíka.“

Meðal þeirra kveðjugjafa sem Stína Maja fékk við útskriftina.

Úr 10 systkina hópi

Stína Maja kemur úr 10 systkina hópi frá Þórshöfn á Langanesi, þar sem þurfti sjálfstæði og samvinnu til allt gengi upp á stóru sjómannsheimili. Öll systkinin voru rekin í nám. „Ég var í miðjunni, á milli bræðra, og þess vegna er ég svona nagli. Ég er menntuð kennari og þroskaþjálfi og vann á Kópavogshæli 1977 og lærði margt þar fyrir þroskaþjálfaskólann. Ég eignast börnin mín þrjú þegar ég starfaði þar. Svo kom ég hingað að vinna 1982 og hef verið hér síðan. Ég tók kennaraháskólann með vinnu og var boðin vinna í Öldutúnsskóla. Ég hef aldrei þurft að sækja um vinnu.“

Fallegar hettupeysur sem nemendur saumuðu.Eiga oft erfitt með að treysta

Stína Maja hefur heldur aldrei misst úr dag í vinnu vegna veikinda og segist alla tíð hafa búið yfir mikilli orku, enda í draumastarfi sínu; samskiptin við foreldrana, umhverfið sem þarf að tengjast og finna nám við hæfi handa nemendum. Oft hafa margir boltar verið á lofti í einu. „Nemendur sem ekki ná takti í venjulegu skólalífi hafa verið áhugamál mitt alla mína tíð. Ég þrífst best þar sem þarf að hafa mikið fyrir hlutunum og horfa á marga vinkla í einu. Við erum hér á forsendum nemendanna og oft þarf að grafa djúpt til að finna áhugasvið þeirra. Þau eiga erfitt með að treysta því búið er að ganga á ýmsu áður en þau koma hingað og þau halda stundum að ekkert betra taki endilega við hér.“

Fallegar hettupeysur sem nemendur saumuðu.

Kærleikur og þolinmæði

Í Fjölgreinadeildinni er unnið eftir aðalnámskrá grunnskóla, en nálgunin á nemendur er önnur og lausnamiðaðri. „Þetta byggist á samvinnu við foreldra. Það þarf líka að styrkja þá og efla og finna hvaða leiðir eru færar fyrir börnin þeirra. Starfsfólkið hérna kann leiðirnar að þeim og hér er unnið út frá fræðilegu skipulagi sem byggir á kærleika og þolinmæði. Nemendur bíða oft eftir að við gefumst upp á þeim en það gerum við ekki. Við sýnum að við höfum trú á þeim. Þeir eru margir orðnir tengslaskertir við skólasamfélagið. Hinir skólarnir reyna eins og þeir geta en skortir oft verkfærin og aðstæðurnar. Margbreytileikinn rúmast ekki innan veggja þar,“ segir Stína Maja.

Kisukassar og róla sem nemendur bjuggu til.

Fleiri hlutir frá útskriftarsýningunni.

Miðdeild bætist við

Fjölgreinadeildin varð upphaflega til þegar úrræði vantaði fyrir 3 – 4 drengi í 10. bekk sem áttu félagslega og námslega erfitt í sínum skólum. Fyrstu árin voru um 26 -27 nemendur og lengi vel 15-25 á hverju ári. Svo smátt og smátt náðu skólarnir betri tökum á unglingunum sínum. Í dag er þó þörfin komin niður í miðdeild og í haust breytist Fjölgreinadeild í úrræði fyrir 5. – 10. bekk.

„Sum munu koma hingað í skammtímaúrræði og það verður áfram að hafa úrræði og skyndilausnir handa nemendum. Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir hjálp. Það sem þarf er þolinmæði og vilji til að hjálpa nemendunum og þykja vænt um þau. Sjá í þeim það sem þau hafa og byggja á því. Starfsfólkið hér er komið með gríðarlega reynslu í því. Það þarf að byggja svona vinnu á góðum mannskap sem er til staðar þegar börnin koma. Og að það hafi skilning á hverju þarf að vinna í.“

Fullur samkomusalur af stoltum fjölskyldumeðlimum.

Föðmuð og knúsuð

Spurð hvað hafi verið mest gefandi við starfið í tímans rás segir Stína Maja þann mikla árangur sem náðst hefur í Fjölgreinadeildinni og hafa getað fylgt nemendum eftir. „Þau koma svo oft hingað eftir að þau útskrifast. Faðma mann og sum hafa komið heim til mín með blóm og þakkað mér fyrir að umbera sig. Ég hef horft á eftir þessum flottu krökkum verða bifvélavirkjar, húsasmiðir, snyrtifræðingar, múrarar, kokkar og flugvirkjar.“

Einnig komi fyrrum nemendur stundum röltandi með börnin sín í kerrum. „Það er líka ofboðslega gefandi þegar maður sér að börnin taka sjálfsmyndina og styrkja hana og gera þau fær um að fara í framhaldsskóla án aðstoðar. Foreldrarnir eru svo dómararnir og það eru þeir sem finna breytingarnar. Sumir segja að við höfum bjargað heimilisbragnum, jafnvel lífum. Hlutirnir þróast yfir í eðlilegt heimilislíf aftur,“ segir Stína Maja að lokum og tekur fram að þótt hún sé að hætta, þá ætlar hún að halda áfram að miðla því besta sem hún kann til deildarstjórans sem tekur við í haust og til skólasamfélagsins í Hafnarfirði.

Myndir/OBÞ

Útskriftarmynd: Fremri röð frá vinstri; Fanney fræðslustjóri, Guðrún kennari, Arna skólastjóri, Ellert Dagur, Fjóla, Rebekka, Anna Karen Haraldur skólastjóri, Stína Maja. Aftari röð frá vinstri; Halldór Kári, Víðir stuðningsfulltrúi, Bergdís verkgreinakennari.